Sjálfstæðisflokkur undirbýr nauðlendingu
Þegjandi samkomulag mun takast milli stríðandi fylkinga í Sjálfstæðisflokki. Þingflokkurinn mun samþykkja orkupakkann. Andúðin vex rétt á meðan. Síðan finna fylkingarnar sameiginlegt kappsmál. Baráttan gegn flestu sem við kemur Evrópusambandinu er líklegasti kosturinn.
Forsvarsmenn stríðandi fylkinga vita að enginn mun sigra í innanflokksátökunum. Því er næsta víst að síðar í þessum mánuði nauðlendi flokkurinn í deilunni. Allir skaðast. En ekki eins illa og myndi gerast fengi óróinn að nærast enn frekar.
Orkupakkinn verður samþykktur á Alþingi eftir tæplega hálfan mánuð. Sigmundur Davíð og hans fólki fær þá til sín þá sjálfstæðismenn sem eru ósáttastir. Jafnvel bara tímabundið. Treyst er á, og vonast er eftir, að sárin grói hratt.
Staða Bjarna Benediktssonar hefur veikst og mun veikjast enn frekar. Mestrar spennu er að vænta um pólitíska framtíð Bjarna. Enginn álitlegur kostur er sjáanlegur sem næsti formaður Sjálfstæðisflokksins. Áfram verður staðan því sú sama; Bjarni situr uppi með flokkinn og flokkurinn með Bjarna.