„Að öllu samanlögðu – og hér hefur aðeins verið stiklað á stóru – virðist blasa við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi varla annað upp úr krafsinu í þessu ríkisstjórnarsamstarfi en að glata forystuhlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum,“ skrifar Páll Magnússon forseti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Mogga dagsins.
Páll segir ríkisstjórnina myndaða um ekki neitt. „Hún varð bara til af því að það var hægt að mynda hana; af því bara. Þegar lesnar eru saman niðurstöður flokksráðsfunda VG og Sjálfstæðisflokksins nýverið – og umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á dögunum – kemur þetta berlega í ljós: ríkisstjórnin á ekkert sameiginlegt erindi við þjóðina,“ skrifar Páll.
„Ef við lítum sérstaklega á stöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu samhengi er auðvelt að rökstyðja þá staðhæfingu að hún hafi líklega aldrei, í rúmlega 90 ára sögu flokksins, verið verri en einmitt núna,“ segir Páll. „Í síðustu borgarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn minnsta fylgi sem hann hefur fengið frá stofnun. Í síðustu alþingiskosningum fékk flokkurinn næstminnsta fylgi frá stofnun – og missti forystuhlutverkið í tveimur af þremur landsbyggðarkjördæmum. Raunar munaði innan við hundrað atkvæðum á að flokkurinn missti forystuna í þeim öllum. Í öllum könnunum um langt skeið hefur flokkurinn verið botnfastur í kringum 20% fylgi og Samfylkingin mælist ítrekað miklu stærri. Og það sem kannski er enn alvarlegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn er að Samfylkingin hefur mælst stærri í öllum kjördæmum landsins; líka í Suðvesturkjördæmi þar sem menn töldu ekki unnt að hagga forystuhlutverki flokksins.“
„Ef litið er á stöðu þeirra málefna sem flokkurinn ber helst fyrir brjósti þessi misserin þá er hún þessi: Umsvif hins opinbera halda áfram að þenjast út og með fjárlögum yfirstandandi árs var sett nýtt Íslandsmet í aukningu ríkisútgjalda milli ára; málefni hælisleitenda eru áfram í fullkomnum ólestri og útgjaldaaukningin í þessum málaflokki stjórnlaus; eina virkjunin sem komin var á framkvæmdastig, Hvammsvirkjun, var stöðvuð í sumar því aðdragandinn samræmdist ekki tilskipun Evrópusambandsins. Sjálfstæðisflokkurinn er einhvern veginn búinn að láta vefja sér inn í þá óskiljanlegu þversögn VG að tala í síbylju um orkuskipti – en það má samt ekkert virkja til að hægt sé að skipta um orku,“ skrifar Páll.
Og bætir við: „Öll þessi mál eiga það sameiginlegt að vera formlega á forræði ráðherra Sjálfstæðisflokksins en lúta í reynd neitunarvaldi VG. Ofan á þetta bætist að utanríkisráðherra hefur ákveðið að endurflytja frumvarp sitt um Bókun 35, sem er gríðarlega umdeilt meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Mörgum þeirra finnst beinlínis átakanlegt að varaformaður flokksins flytji mál af þessu tagi.“