Ragnar Önundarson skrifar: Fylgi Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningum er um þriðjungur atkvæða. Fylgið í þingkosningum er um fjórðungur. Áður fyrr var fylgið oft 35-38%.
Ég tel útilokað fyrir flokk sem vill hafa 35-40% fylgi að velja sér forystu úr hópi þessa eina prósents sem á þriðjung af auðnum. Flokkur sem það gerir mun smám saman nálgast 1% fylgi. Því fyrr sem það gerist því betra, því þá verða menn að leiðrétta mistökin. BB er hins vegar glæsilegur forystumaður og mundi njóta sín vel í viðskiptalífinu.
Jóhann Hafstein, sem var formaður Sjálfstæðisflokksins næstur á eftir Bjarna Benediktssyni hinum eldri, ritaði svo árið 1939, þá ungur maður, er hann hafði áður skilgreint grundvöll sjálfstæðisstefnunnar:
„Auðvitað er nú ekki með þessu sagt, að sjálfstæðisstefnan láti sig engu varða misskiptingu arðsins, en þetta atriði hefur aldrei verið verulega tilfinnanlegt hér á landi. En auðvitað er það eitt verkefni sjálfstæðisstefnunnar, að það skapist ekki kljúfandi djúp í þjóðlífinu milli öreiga annars vegar og auðkýfinga hins vegar. Eitt aðalmeðalið til þess, að svo verði ekki, á skattalöggjöfin að vera, sem tekur af einstaklingunum eftir mismunandi efnahag í sameiginlegan sjóð, ríkissjóðinn, og af þessum sameiginlega sjóði er svo eftir atvikum úthlutað og ráðstafað á einn veg eða annan til þess að skapa grundvöll undir bættum kjörum almennings í heild“.
Formaður flokksins telur mikilvægt að lækka skatta. Hann ætlar á sama tíma ekki að gera neitt í tekjutengingu lífeyris aldraðra og öryrkja. Skoðanir flestra tengjast hagsmunum þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn verður að snúa af villu síns vegar.
Greinin birtist á Facebooksíðu höfundar.