Sjálfstæðisflokkur skapar efnahagslegan óstöðugleika
Það er ljóst að krónan er og hefur verið slæmur förunautur öll þessi ár. Við gengisfellingu borgar almenningur brúsann. Að tala um krónu án verðtryggingar er eins og að tala um pylsu án kóks.
„Fyrir hartnær tíu árum töpuðu venjuleg íslensk heimili stórfé, töpuðu sparifé sínu, 90% af hlutabréfamarkaðnum hurfu og lánin okkar ruku upp úr öllu valdi, m.a. vegna verðtryggingarinnar. Besta leiðin gegn of háum vöxtum er heilbrigt og stöðugt efnahagslíf. Sá stöðugleiki hefur ekki verið fyrir hendi,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi.
„Í fyrsta lagi hafa þrjár síðustu ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokksins sprungið. Slíkur pólitískur óstöðugleiki af hálfu Sjálfstæðisflokksins skapar efnahagslegan óstöðugleika.
Í öðru lagi liggur grunnvandi hárra vaxta og verðtryggingar í gjaldmiðlinum. Fram hjá þeirri staðreynd verður bara ekki komist. Að sjálfsögðu tengist þetta. Þeir sem eru á móti verðtryggingunni verða að taka umræðuna um gjaldmiðilinn.
Það er ljóst að krónan er og hefur verið slæmur förunautur öll þessi ár. Nú sjáum við að raungengi hefur aldrei verið eins sterkt en raungengi íslensku krónunnar hefur sveiflast mest allra vestrænna gjaldmiðla undanfarin 15 ár. Ég velti fyrir mér hvort ekki hljóti að vera nógu erfitt að vera í viðskiptum á Íslandi þótt ekki bætist við sú staðreynd að maður helst að vera gjaldeyrissérfræðingur í viðbót.
Við eigum að hætta að nýta gengisfellingar sem viðbragð við efnahagsástandinu, enda er það almenningur sem borgar alltaf brúsann. Við gengisfellingu borgar almenningur brúsann.
Lausnin er því í nýjum gjaldmiðli. Í því sambandi kemur einungis einn kostur til greina að mati langflestra sérfræðinga og það er evran með aðild að Evrópusambandinu, enda er það leið sem 19 þjóðir í Evrópu hafa kosið að fara. Á meðan við höfum krónuna munum við brúa við verðtrygginguna og oft hærri vexti en aðrar þjóðir. Það er bara svo einfalt.
Að tala um krónu án verðtryggingar er eins og að tala um pylsu án kóks. Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt þótt hvort tveggja sé manni óhollt.“