Sjálfstæðisflokkur hefur vanrækt heilbrigðiskerfið.
Óvænt birtir Mogginn, og það á leiðarsíðu sinni, grein eftir Helgu Völu Helgadóttur. Í lok janúar birtist þar grein eftir Helgu Völu þar sem hún lýsti vanþóknun sinni á ritstjórn Davíðs Oddssonar.
„Tilgangurinn helgar meðalið, fjölmiðillinn Morgunblaðið er dreginn niður í svaðið með ritstjóranum og fjórða valdið skaddast. Eftir stendur viðfangsefnið, stundum laskað, stundum fíleflt en fjölmiðillinn og þar af leiðandi hið upplýsta samfélag ber skaðann,“ skrifaði Helga Vala meðal annars þá.
Nú finnur hún harkalega að þingflokki Sjálfstæðisflokksins og framgöngu þingmannanna gagnvart Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Grein sína endar Helga Vala svona:
„Það veiðileyfi sem þingmenn Sjálfstæðisflokks virðast hafa fengið á heilbrigðisráðherra kemur stjórnarandstöðuþingmanni spánskt fyrir sjónir, ekki síst í ljósi þagnar annarra stjórnarþingmanna við aðgerðum ráðherra Sjálfstæðisflokks þegar kemur t.d. að leyfum til hvalveiða, löskun á dómskerfinu og lækkun veiðigjalds. Svo virðist sem gagnrýni innan stjórnarflokka sé bara í boði ef sjálfstæðisþingmenn bera hana fram. Annars myndi hún líkast til kallast sundrung og kattasmölun.“
Þarna er létt skotið á hina rólegu þingflokka Vinstri grænna og Framsóknar, og það að vonum.
„Það er kostulegt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem hefur verið við völd nánast linnulaust frá lýðveldisstofnun, tala um stöðuna í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Svo virðist sem þau hafi misst af umræðu undanfarinna ára þar sem ítrekað hefur verið kallað eftir uppbyggingu innviða, meðal annars heilbrigðiskerfisins. Eins og þau hafi einnig misst af umræðu meðal þjóðarinnar, á málþingum, í könnunum og í fjölmiðlum um mikilvægi opinbers gjaldfrjáls heilbrigðiskerfis. Heilbrigðiskerfið hefur í boði Sjálfstæðisflokks og samstarfsflokka verið vanrækt stórkostlega, svo þrátt fyrir frábært starfsfólk á heimsmælikvarða er helst fjallað um biðlista og gjaldtöku af fárveiku fólki. Þessi staða í heilbrigðiskerfinu er pólitísk ákvörðun, ekki náttúrulögmál, og þessu verður einfaldlega að snúa við,“ skrifar Helga Vala.
„Núna hefur þingmönnum Sjálfstæðisflokksins tekist að láta umræðuna snúast um að heilbrigðisráðherra í þeirra eigin ríkisstjórn beri ábyrgð á ófremdarástandinu. Að hún sé sú sem komi í veg fyrir að veikt fólk fái bót meina sinna á meðan að staðreyndin er sú að það þarf að efla hér okkar opinbera heilbrigðiskerfi með sameiginlegu átaki okkar allra, einmitt til að við getum borið okkur saman við þau velferðarríki sem við í daglegu tali flokkum okkur með.
Það þarf engan stærðfræðing til að segja okkur að það er óskaplega heimskulegt að senda veikt fólk í aðgerðir til útlanda sem kostar ríkissjóð meira en að framkvæma aðgerðirnar hér heima. En þessir ágætu þingmenn virðast horfa algjörlega framhjá því að það er hægt að gera þetta á enn kostnaðarminni hátt, með því að byggja upp og hlúa að okkar opinbera heilbrigðiskerfi. Af hverju neita sjálfstæðismenn að horfast í augu við að það er búið að reyna með hörmulegum afleiðingum að svelta hið opinbera kerfi nánast inn að beini? Það er ekki bannað að leita lækninga hjá sjálfstæðum læknum en það sem mun alltaf koma okkur illa er ef sjálfstæðismönnum tekst að búa hér til tvö- og þrefalt kerfi þar sem þeir efnameiri komast fram fyrir raðirnar og fá betri þjónustu í krafti fjármagns. Það er ekki í anda þess velferðarkerfis sem við jafnaðarmenn aðhyllumst og ég veit að heilbrigðisráðherra aðhyllist líka.“