„Hærra skattþrepið, 46,24%, er sannarlega hátekjuskattur og verður ekki lengra gengið.“
Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og fremsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafnar tillögu ASÍ um fleiri skattþrep og hátekjuskatt. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Mogganum í dag.
Þar segir hann: „Ég hef aldrei verið hrifinn af fjölþrepa tekjuskattskerfi. Tvö skattþrep til viðbótar, eins og ASÍ leggur til, auka flækjustig, gera skattkerfið ógegnsærra og auka jaðarskatta.“
Varðandi hugmyndir um hátekjuskatt segir Óli Björn: „Hærra skattþrepið – 46,24% – er sannarlega hátekjuskattur og verður ekki lengra gengið.“
„Ég tek undir með ASÍ að þær breytingar sem verði gerðar á tekjuskattskerfinu miði að því að styrkja stöðu þeirra sem lakast standa. En við getum ekki gengið þannig fram að gengið sé á ráðstöfunartekjur annars launafólks sem stendur bærilega. Með því er verið að innleiða vinnuletjandi skattkerfi og á því munu allir tapa til lengri tíma,“ segir hann í Moggaviðtalinu.
Í lok viðtalsins segir. Óli Björn bendir á að nú sé verið að vinna á vegum ríkisstjórnarinnar að útfærslu á tillögum um breytingar á tekjuskattskerfinu. „Sú vinna miðar fyrst og fremst að því að létta undir með þeim sem lægri tekjur hafa. Að þessu leyti eru ASÍ og ríkisstjórnin samstiga.“