Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og helsti máladrepir þar á bæ, skrifar grein í Moggann í dag. Þar gengur Birgir nærri Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og frumvarpi hennar til breytingar á stjórnarskránni.
„Á miðvikudaginn mælti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir frumvarpi sínu til breytinga á stjórnarskránni. Frumvarpið er að miklu leyti afrakstur vinnu sem staðið hefur yfir frá því snemma á þessu kjörtímabili og hafa formenn allra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, tekið þátt í henni. Ekki náðist samstaða um tillögurnar og var niðurstaðan því sú að forsætisráðherra legði frumvarpið fram í sínu nafni í stað þess að formennirnir stæðu í sameiningu að flutningi þess. Leiðir það að sjálfsögðu til þess að meiri óvissa er um framgang málsins í þinginu en ef um samkomulagsmál væri að ræða,“ skrifar Birgir og bendir á að hans flokkur mun ekki leggja forsætisráðherra lið í þessu máli.
Þetta er háskaför Katrínar. Birgir gefur vinnu og vilja Katrínar lága einkunn. Í lok greinarinnar, þar sem Birgir fjallar um forsetakaflann í frumvarpi Katrínar, segir:
„Gallinn við þennan hluta frumvarps forsætisráðherra er í stuttu máli sá, að verið er að leggja til breytingar á ýmsum atriðum sem engin sérstök þörf er á að breyta, en látið ógert að taka á og skýra aðra þætti sem raunverulega hafa valdið vafa.“
Þetta er fullkomin falleinkunn hjá dúxinum fyrrverandi.