Allt þetta gerist á vakt stjórnmálaflokka sem gefa sig út fyrir athafnafrelsi.
„Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur hlúð að frjálsu framtaki og dregið úr ríkisrekstri þarf að bretta upp ermar og fylgja stefnu flokksins sem hefur borið töluvert af leið á undanförnum misserum. Mikilvægt er að lækka ofurlaun stjórnmálastéttarinnar, embættismanna og opinberra starfsmanna sem eru ekki í neinum tengslum við raunhagkerfi landsins og leggja lítið af mörkum til að byggja upp nýjar atvinnugreinar sem geta tryggt afkomu til lengri tíma,“ þannig skrifar Albert Þór Jónsson viðskiptafræðingur í Moggann í dag.
Albert Þór segir: „Skattahækkanir, fjölgun opinberra starfsmanna og útblásna yfirbyggingu með mikla ákvarðanafælni þarf að skera niður. Það er augljóst að mikilvægasta aðgerð í hagstjórn á Íslandi á næstu árum er að lækka útgjöld ríkissjóðs og auka framleiðni í ríkisrekstri. Þá fjármuni sem verða til með hagræðingu í ríkisrekstri á að nýta í fjármögnun á nýjum fyrirtækjum á einkamarkaði í líftækni, lyfjaiðnaði, fjártækni, heilbrigðisþjónustu og hátækni.“
Albert Þór vill áminna opinbera starfsmenn: „Stjórnmálamenn, embættismenn og opinberir starfsmenn og þeir sem vinna óbeint fyrir ríkið sem eru fjölmargir verða að gera sér grein fyrir því að peningarnir detta ekki af himnum ofan heldur eru þeir afrakstur sparnaðar skattgreiðenda.“
Albert Þór sér mörg tækifæri verði stefnu Sjálfstæðisflokksins fylgt: „Hægt væri að spara tugi milljarða með því að leggja niður opinberar stofnanir sem hafa annaðhvort ekkert hlutverk eða eru úreltar í breyttum heimi.“
Albert Þór heldur áfram: „Fjármálakerfið, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og fjölmiðlar eru ríkisrekin að stærstum hluta og þurfa ekki að lúta aga samkeppni eða einkaframtaks. Allt þetta gerist á vakt stjórnmálaflokka sem gefa sig út fyrir athafnafrelsi, frjálst framtak, samkeppni og minni ríkisafskipti. Árangurinn á undanförnum árum er ekki mikill og virðast stjórnmálaflokkar sem aðhyllast ríkisrekstur og miðstýringu stjórna ferðinni með forystumenn sem hafa aldrei þurft að vera í samkeppnisrekstri heldur notið þess að vera í faðmi ríkisins frá því elstu menn muna.“
Að lokum ákveðin áminning til forystu Sjálfstæðisflokksins: „Draumur kommúnista og þeirra sem aðhyllast miðstýringu hefur alltaf breyst í martröð þegar raunveruleikinn tekur við sama hvaða atvinnugreinar er horft til. Stjórnmálaflokkar sem gefa sig út fyrir athafnafrelsi, frjálst framtak og samkeppni verða að fara að starfa eftir því leiðarljósi sem þau voru stofnuð til og þjóna þannig kjósendum sínum sem vilja breyta núverandi stefnu sem er nánast alfarið ríkisstefna á öllum sviðum.“