Einar Hálfdánarson, félagi í Sjálfstæðisflokknum, er ekki á eitt sáttur með flokkinn sinn.
„Lengstum var það svo að hugtakið óstjórn og Sjálfstæðisflokkurinn voru andheiti. Óstjórn leiðst hreinlega ekki á vakt Sjálfstæðisflokksins. Ábyrgð, stjórnfesta, réttlæti og heilbrigð skynsemi voru aðalsmerki stjórnarhátta flokksins. Flokkurinn er hugsjónaflokkur og ásælist ekki völd valdanna vegna heldur til að koma góðu til leiðar fyrir fólkið í landinu. Skammsýnar lausnir, að ekki sé talað um hreinar vinstrilausnir sem aldrei standast skynsemisprófið, voru eitur í beinum okkar. Fjarað hefur undan grunnstoðunum í stefnu flokksins. Flokkinn hefur rekið af leið,“ segir í nýrri Moggagrein Einars.
„Málefni hælisleitenda eru á forræði Sjálfstæðisflokksins. Fjárausturinn í þann málaflokk mun nema tugum milljarða á ári innan fárra ára. Engin yfirsýn er yfir fjármuni sem renna til þessa,“ skrifar Einar.
„Meðal þess sem málefnanefndin vildi gera var að styrkja ráðherrann til að halda hér uppi landamæravörslu. Píratar, innan við 10% landsmanna, fá því ráðið að hér vantar lagaákvæði sem tryggja að þeir sem ekki eiga rétt á vernd séu fluttir héðan án tafar; séu ekki á framfæri hins opinbera langtímum saman með milljarða kostnaði sem því fylgir. Lýðræði pírata snýst nefnilega um að þeir ráði hvað sem úrslitum kosninga líður. Við málþófstaktík pírata eru einföld ráð sem duga og málefnanefndin vildi undirstrika,“ segir í grein Einars, sem er faðir Diljáar Mistar þingkonu Sjálfstæðisflokksins.
„Það er nefnilega svo að við þær aðstæður sem ríkja á Íslandi, að hingað flykkist fólk sem ekki á rétt á alþjóðlegri vernd og misnotar verndarkerfið, þá hafa löndin rétt til að stöðva strauminn. Þetta hafa t.d. Svíar og Danir gert og það við langtum betri aðstæður en hér eru nú að þessu leyti. Málefnanefndin lagði því m.a. til að komið yrði á forskráningu flugfarþega sem hingað koma. Að auki yrði komið á tímabundinni vegabréfaskyldu að fyrirmynd frændþjóða okkar. Hvort tveggja er okkur heimilt og er í samræmi við EES-samninginn og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Ráðherra hefur það vald sem til þarf ef hann bara vill. Hvorki Davíð né Ingvar S. Birgisson aðstoðarmaður dómsmálaráðherra sem lögðust gegn þessu rökstuddu andstöðu sína. Fróðlegt væri að heyra rökin þótt seint sé nú þegar 500 manns komu hingað í síðasta mánuði að sækja um vernd. Einungis þriðjungur þeirra var frá Úkraínu þar sem neyðin er átakanleg,“ segir meðal annars í greininni, sem nokkru lengi en sá hluti sem hér er birtist.