Hluti leiðara Moggans í dag er fínn. Hér er hann:
„Forystumenn stjórnmálaflokka eru teknir að horfa til næstu kosninga. En ekki endilega glaðbeittir allir. Ný skoðanakönnun birtist og neyðir þá suma til að horfa framan í „alvöruna“. En reynslan kennir okkur að kannanir sem birtast á þessum tíma, þegar kjörtímabil er vel hálfnað, segja ekki endilega alla söguna. Sennilega er rétt að benda á þá þekktu staðreynd í útskýringum og mati á nýfenginni „niðurstöðu“. En samtalið, sem forystumenn eiga hins vegar við sjálfa sig, gengur út á að erfiðar spár ber að taka alvarlega og íhuga þá kosti sem eru fyrir hendi til að breyta þeim í hagfelldari úrslit.
Dæmin sýna að slíkt er hægt. Hin dæmin eru einnig til sem sýna að flokkar sem eru á mikilli siglingu og óvæntri á miðju kjörtímabili halda fylgisbylgjunni illa. Mörg slík sanna að iðulega er fylgisskot af því tagi fremur aðvaranir til flokka frá stuðningsmönnum sem lengi hafa verið trúir en óánægjan með „sinn flokk“ er raunveruleg. En óánægja á miðju kjörtímabili gefur flokknum færi á að gera betur og uppskera skár en horfur standa nú til. Alþýðuflokkurinn heitinn fór á slíka siglingu og komst upp í 30% í könnunum, en úrslitin 1991 dugðu aðeins til að tryggja flokknum tíu þingmenn og kjörtímabili síðar var sá ágæti flokkur kominn niður í sex.
Sjálfstæðisflokki hlýtur að vera brugðið við nýlega könnun og sama saga gildir um hina stjórnarflokkana tvo. Núverandi ríkisstjórn þriggja flokka, að jafnaði öflugra, dugar þeim ekki að sögn nýjustu könnunar til að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Það hefur komið fyrir að þrír slíkir hafa ekki endilega viljað í slíka stjórn, en að þeir ráði ekki við það er nýlunda.“