Sjálfskipaður foringi kynslóðabilsins
Fulltrúar unga fólksins kenna miðaldra hræðslubandalaginu um hvernig fór með kosningaréttinn þeirra.
„Það er leiðinlegt að þingmenn hafi með málþófi komið í veg fyrir að frumvarp, sem nýtur stuðnings mikils meirihluta Alþingis, fengi afgreiðslu fyrir páska,“ segir Ingvar Smári Birgisson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, í viðtali við Moggann, þar sem sjálfskipaður foringi kynslóðabilsins er ritstjóri.
„Full ástæða hlýtur að vera að velta því fyrir sér hvort eðlilegt getur talist að þeir sem skilgreindir eru sem börn í lögum eigi að hafa kosningarétt,“ skrifar sá.
Unga fólkið í stjórnmálum kennir miðaldra körlum um hvernig fór. Ein helsta vörn hræddu karlana var ekki megi lækka kosningaaldur nema að vel ígrunduðu máli og í pólitískri sátt við þá.
„Hvað sem fólki kann að finnast um þetta ættu flestir að geta verið sammála um að slíkar breytingar þarf að ígrunda vel og ræða og að ekki er heppilegt að þær séu gerðar í ofboði rétt fyrir kosningar. Það er líka æskilegt að sem mest samstaða ríki um reglur um kosningar og þær séu alls ekki nýttar til að efna til ófriðar og sundurlyndis. Nóg er samt,“ skrifar ritstjórinn.
Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka sem hafa slíkar hreyfingar innan sinna vébanda, sendu í sameiningu bréf til þingmanna þar sem þeir voru hvattir til þess að samþykkja frumvarpið. Í bréfinu segir meðal annars: „Athygli vekur að yfirgnæfandi meirihluti þeirra styðja málið, og öll samtök ungs fólks sem sendu inn álit voru málinu fylgjandi. Það væru því mikil vonbrigði ef Alþingi tæki ekki afstöðu með ungu fólki sem vill hafa áhrif á samfélagið sitt, og bæri fyrir sig ákvæði sem ekki eiga við.“
Unga fólkið í hinum stjórnarflokkunum er ekki hrifið: „Þetta er frekar ömurlegt,“ segir Gyða Dröfn Hjaltadóttir, formaður Ungra VG, sem telur að frumvarpið hafi verið stöðvað með málþófi þingmanna þeirra flokka sem njóta minna fylgis meðal ungs fólks. „Við erum auðvitað bara mjög vonsvikin að þetta frumvarp hafi ekki náð í gegn,“ segir Sandra Rán Ásgrímsdóttir, formaður Sambands ungra framsóknarmanna í samtalið við Moggann.