Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifaði:
Sjaldan hef ég í hjarta mínu verið jafn innilega reið eins og þegar ég horfði á Sólveigu Önnu og Halldór Benjamín í Kastljósi gærkvöldsins. Þarna tókust á rödd réttlætis og góðrar siðferðisvitundar Sólveigar Önnu og svo eitthvað allt annað. Ógnin við Lífskjarasamninginn er láglaunakonan með miklu ábyrgðina sem er á launum sem duga ekki út mánuðinn, þrátt fyrir lífskjarasamninginn og hans hækkun upp á 90.000 kr.
Það er auðvitað svo að við viljum öll stöðugleikann, betri vaxtakjör og manneskjulegri vinnutíma. Hinsvegar getur það ekki gengið að lægstu launin dugi ekki til framfærslu, að láglaunafólk eigi ekki gott líf hér í „landi tækifæranna“ vegna þess að … já vegna hvers?
Hér er kallað á stöðugleika, en hann getur aldrei verið boðlegur ef fjöldi fólks verður að gjalda fyrir hann með því að lifa í fátækt, að hér sé lægst launaða fólkið gert ábyrgt gagnvart öllum hinum sem ná að lifa af launum sínum. Mælikvarðinn er ekki flókinn, hann er einfaldlega sá að launin dugi fyrir framfærslu mánaðarins.
Ég styð baráttu láglaunafólks, láglaunakonunnar. Ég vona að konur á Íslandi eignist líf sem brennir þær ekki út um fimmtugt. Ég vona að við sem þjóð berum gæfu til að breyta því að hér sé stærsti hópur þeirra sem lenda inn á örorku konur yfir fimmtugt. Stjórnvöld vilja fækka öryrkjum, ráð mitt til þeirra er að útrýma fátækt!