Fréttir

„Sjá ekki allir óréttlætið í þessu?“

By Miðjan

December 03, 2019

Ágúst Ólafur Ágústsson á Alþingi í dag: „Fyrst aðventan er nú gengin í garð vil ég biðja fólk um að íhuga sex atriði.

Eitt: Á sama tíma og Rauði kross Íslands telur ástæðu til að reka sérstakan sjóð sem heitir Sárafátæktarsjóður birtist blaðafrásögn á Íslandi um að lúxusbílasala á Íslandi sé á við olíuríki.

Tvö: Á sama tíma og einn útgerðarmaður gengur út með 22.000 millj. kr. í vasanum vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar fella allir ríkisstjórnarflokkarnir tillögu sem kostar það sama en hefði tryggt að enginn eldri borgari yrði skilinn eftir undir lágmarkslaunum.

Þrjú: Á sama tíma hagnast annar útgerðarmaður meira á einu ári, einn og sér, en það sem öll þjóðin fær í sinn hlut í veiðileyfagjöld.

Fjögur: Á sama tíma og ein hjón selja hlut sinn í tryggingafélagi fyrir 1.600 millj. kr. lifa 70% öryrkja undir 300.000 kr.

Fimm: Á sama tíma og 1% ríkustu Íslendinganna á meiri eignir en 80% landsmanna búa 6.000 íslensk börn við fátækt.

Sex: Á sama tíma og sett er sérstök aðhaldskrafa á Landspítalann, hjúkrunarheimilin og skólana í fjárlögum ríkisstjórnarinnar setur þessi sama ríkisstjórn Vinstri grænna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins það í sérstakan forgang að lækka bankaskatt, að lækka erfðafjárskatt, að lækka veiðileyfagjöld og að lækka stimpilgjöld af þeim sem kaupa stór skip.

Herra forseti. Sjá ekki allir óréttlætið í þessu?“