„Framboð mitt er algjörlega á faglegum nótum og mér er mjög illa við flokksframboð í þessu efni,“ sagði Haukur. „Ég hef starfað fyrir eldri borgara í tvö ár og unnið að málefnum þeirra. Ég er fræðimaður í ReykjavíkurAkademíunni og byrjaði á að gera skýrslu um málefni eldri borgara. Ég hef áhuga á málefnum þeirra og hef eingöngu skilað frá mér útreikningum og fræðilegu efni um kjör aldraðra.“
Þetta er tilvitnun í frétt í Mogganum Það er Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur sem talað var við. Og hvert var tilefnið?
„Fjögur af sextán sem bjóða sig fram til setu í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) sitja í stjórnum eða nefndum Sósíalistaflokksins. Aðalfundur FEB fer fram fimmtudaginn 12. mars og þar verður m.a. kosinn nýr formaður auk fimm stjórnarmanna í sjö manna stjórn og þriggja varamanna,“ segir í fréttinni.
Haukur benti; „…á að keppinautur hans um formannssætið, Ingibjörg H. Sverrisdóttir, væri flokksbundin sjálfstæðiskona, virkur félagi í Sjálfstæðisflokknum og baráttukona gegn þriðja orkupakkanum. Haukur sagði að fólk úr stjórnmálaflokkunum hefði lengi tekið þátt í störfum fyrir FEB. Hann telur að á stundum hafi stjórnmálatengsl verið slæm fyrir hagsmunabaráttu aldraðra þegar stjórnarmenn FEB hafi verið samflokksmenn ráðherrans sem fer með málaflokkinn. Þá hafi flokkshollustan stundum orðið hagsmunabaráttunni yfirsterkari. Hann benti á að Sósíalistaflokkurinn færi ekki með neitt ráðuneyti og hefði því enga möguleika á að fegra ímynd sína eða fagráðherra á þennan hátt.“
Mogginn er oft hreint dásamlega lúðalegur.