Gunnar Smári skrifar:
Skattalækkanir Sjálfstæðisflokksins? Það er eitthvað sem almenningur þekkir ekki. Eftir nær óslitna tíð þessa flokks í fjármálaráðuneytinu frá 1991-2021 hefur skattur á lágmarkslaun hækkað úr núll í rúmar 55 þús. kr. Í hverjum einasta mánuði. Sem gera 660 þús. kr. á ári sem Bjarni tekur af láglaunafólkinu sem Ólafur Ragnar Grímsson, síðasti fjármálaráðherrann fyrir umturnun nýfrjálshyggjunnar á skattkerfinu, innheimti ekki. Þannig fjármálaráðherra er Bjarni. Hann hrifsar matinn af borðum hinna fátæku.
Hjón á lægstu launum sem eru á vinnumarkaði frá tvítugt til sjötugs greiða þannig 33 m.kr. meira í skatt í veröld Bjarna en veröld Ólafs Ragnars og forvera hans. Þetta er íbúðarverð, sem Bjarni hrifsar af fátækasta launafólkinu. Og þetta kallar hann skattalækkanir.
Skattarnir sem Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði voru eignaskattar hinna ríku, erfðafjárskattar þeirra sem erfðu milljarða, fjármagnstekjuskattur allra auðugasta fólksins og tekjuskattur stærstu fyrirtækjanna, auk þess sem flokkurinn holaði út skattkerfið svo hin allra auðugustu höfðu þúsund og eina leið til að lækka skatta sína.
Fullyrðingar Sjálfstæðisflokksins um almennar skattalækkanir sínar eru því ósvífni, eiginlega meiri ósvífni en þegar flokkurinn talar um frelsi. Frelsi Sjálfstæðisflokksins er frelsi hinna ríku til að leggja helsi á hin fátæku; frelsi hinna ríku til að sölsa undir sig auðlindir almennings, til að arðræna launafólk, draga til sín vald og til að komast undan skattgreiðslum.
Þetta er frelsið hans Bjarna. Það er helsi fjöldans. Alveg eins og skattalækkanir hans Bjarna eru bara fyrir hann og hans ætt og vini en eru í reynd skattahækkanir á fjöldann.