- Advertisement -

Sitthvað er öryrki og útgerðarmaður

Ríkisvaldið lítur þegnanna ólíkum augum, það fer eftir stétt þeirra og stöðu og ekki síst út frá efnahag þegnanna.

Á Miðjunni í gær voru tvær fréttir, hlið við hlið, þar sem hugur ráðafólks opinberaðist með óvenju skýrum hætti. Önnur sagði frá ömurlegri framkomu ríkisstjórnar Íslands gagnvart allra fátækasta fólki landsins og hin sagði frá hvernig sjávarútvegsráðherra tók til baka ákvörðun Fiskistofu um veiðibann togara sem stofan telur að hafa stundað ólöglegt brottkast á fiski.

Í einum vettvangi henti ráðherrann Fiskistofu út í horn, tók af henni völdin, bjargaði þar með útgerðinni frá því að taka út sína refsingu. Ríki útgerðarmaðurinn getur verið glaður og á kannski eftir að þakka fyrir sig, nema hann sé búinn að því, ekki veit ég það.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í hinni fréttinni segir meðal annars: „Umboðsmaður Alþing­is tók á ólög­leg­um bú­setu­skerðing­um gagn­vart ör­yrkj­um í júní 2018 eða fyr­ir rúmu hálfu ári og Trygg­inga­stofn­un rík­is­ins er enn ekki far­in að borga sam­kvæmt úr­sk­urði hans. Þarna er verið að skerða ekki bara fá­tækt fólk held­ur þá fá­tæk­ustu meðal fá­tækra á Íslandi. Þarna eru um 1.000 ör­yrkj­ar sem fá skert­ar bæt­ur frá TR og tug­ir ör­yrkja sem gert er að lifa á minna en 80.000 kr. á mánuði og sum­ir fá svo til ekki krónu til fram­færslu.“

Það var Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sem skrifaði þetta.

Bæði þessi dæmi, um öryrkjana og útgerðina, eru knúinn áfram með pólitískum vilja. Þau sýna vel hug ríkisstjórnarinnar og flestra annarra þingmanna. Guðmundur Ingi Kristinsson stendur oftast nánast einn í sinni baráttu.

Alþingi gat á einu augnabliki afgreitt ný lög til þæginda fyrir fiskeldi á Vestfjörðum. Þá var víst vá fyrir dyrum. En ekki þegar ríkið svínar á, þvert á gildandi lög, fólki sem hefur aðeins áttatíu þúsund krónur á mánuði. Og öllum virðist skítsama.

Það er við hæfi að Guðmundur Ingi eigi síðasta orðið: „Það er komið hálft ár frá niður­stöðu umboðsmanns Alþing­is og enn verið að skerða bæt­urn­ar ólög­lega. Okk­ur ber að sjá til þess að fólk sem í boði rík­is­ins lif­ir í al­gjörri fá­tækt og svelt­ur fái rétt sinn strax, en ekki sé reynt að segja að erfitt sé fyr­ir Trygg­inga­stofn­un að reikna þetta út.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: