Silja Dögg og stjórnarandstæðingarnir
Flytja lagafrumvarp um rétt fanga til atvinnuleysisbóta að lokinni fangavist.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður lagafrumvarps um réttindi fanga til atvinnuleysisbóta. Athygli vekur að þeir sex þingmenn sem flytja frumvarpið með Silju Dögg koma úr þremur stjórnarandstöðuflokkum, en enginn annar stjórnarþingmaður kvittar upp á frumvarpið.
Meðflutningsmennirnir koma úr Pírötum, Viðreisn og Flokki fólksins.
Í greinagerð með frumvarpinu segir til dæmis: „Ákvæði þetta á þó við um minni hluta fanga þar sem fæstir þeirra hafa stundað vinnu reglubundið áður en afplánun hefst. Af þessu leiðir að oftar en ekki standa fangar utan atvinnuleysistryggingakerfisins þegar þeir ljúka afplánun en það gerir þeim erfiðara um vik að komast aftur á réttan kjöl að afplánun lokinni. Að mati flutningsmanna eykur núverandi kerfi líkur á því að þeir brjóti af sér á ný og stríðir þannig gegn því markmiði refsivörslukerfisins að vinna gegn afbrotum og hjálpa einstaklingum sem hafa brotið af sér að snúa við blaðinu.“
Og síðan segir: „Í frumvarpinu er því lagt til að hafi fangi samkvæmt vottorði frá fangelsismálayfirvöldum stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun sem í boði er innan viðkomandi fangelsis til samræmis við lög um fullnustu refsinga… …ávinni hann sér rétt til atvinnuleysisbóta vegna þess tímabils eins og hann hefði verið í launaðri vinnu.“