- Advertisement -

Sigurvegarar í Hnakkaþoni

Nemendur Háskólans í Reykjavík tóku um helgina þátt í fyrstu útflutningskeppni sjávarútvegsins. Nemendur höfðu sólarhring til að setja fram áætlun um hvernig koma má ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni. Vinninsliðið fær að heimsækja stærstu sjávarútvegssýningu í Bandaríkjunum.

Á vef Háskólans í Reykjavík segir að þau Egill Sigurðarson, Heiðrún Ingrid Hlíðberg, Helgi Már Hrafnkelsson, Jóhanna Edwald og Rebekka Rut Gunnarsdóttir hafi sigrað í fyrsta Hnakkaþoninu en þau mynduðu þverfaglegt lið úr öllum akademískum deildum HR. Þau sækja í framhaldinu stærstu sjávarútvegssýningu Norður-Ameríku sem fram fer í Boston í mars næstkomandi. Ferðin er í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Keppnin var haldin í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 23. og laugardaginn 24. janúar og var opin öllum nemendum HR. Keppnin var samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík.

Það var mat dómnefndar að vinningsliðið hefði sett fram heildræna lausn á meðal annars markaðsmálum, gæðamálum, flutningi vöru og flutningskostnaði. Auk þess hefðu þau sett fram metnaðarfulla áætlun til næstu 10 ára um hvernig auka mætti sölu þorskhnakka í Bandaríkjunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Í verkefninu þurfti að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna: frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana. Vert er að huga að sérstöðu íslenskrar vöru og með hvaða hætti má viðhalda henni og auka.

Sjá frétt á vef HR.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: