Sigurður Ingi svaf yfir sig
„Ekkert varð af fundinum því umboð nefndarmanna var runnið út. Rannsóknarnefnd samgönguslysa starfar samkvæmt lögum um rannsókn samgönguslysa.“
Það fer svo sem ekki mikið fyrir formanni Framsóknarflokksins og samgönguráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, nema rétt á meðan hann boðar vegaskatta. Annars fer lítið fyrir honum.
Í Mogganum í dag er frétt um sinnileysi ráðherrans. „Rannsóknarnefnd samgönguslysa er ekki starfandi sem stendur. Skipunartími hennar rann út 31. maí síðastliðinn og ný nefnd hefur ekki verið skipuð.“
Þetta er kostulegt. Það er ekki einsog nefndin sú skipti ekki máli. Mogginn segist hafa heimildir fyrir því að sá hluti nefndarinnar sem annast rannsóknir sjóslysa hafi ætlað að funda á föstudaginn. Allmörg mál voru vísts á dagskránni.
„Ekkert varð af fundinum því umboð nefndarmanna var runnið út. Rannsóknarnefnd samgönguslysa starfar samkvæmt lögum um rannsókn samgönguslysa. Með lögunum, sem tóku gildi 1. júní 2013, var starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa, rannsóknarnefndar sjóslysa og rannsóknarnefndar umferðarslysa sameinuð og féllu lög um nefndirnar þrjár þar með úr gildi,“ segir í frétt Moggans.
Þar segir einnig: „Markmið laganna um rannsóknarnefnd samgönguslysa var að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir. Skipunartími nefndarinnar var frá og með 1. júní 2013 til og með 31. maí 2018, eða til fimm ára.“
Hér er niðurlag Moggafréttarinnar: „Í nefndinni sátu sjö aðalmenn og sex varamenn. Geirþrúður Alfreðsdóttir, flugstjóri og vélaverkfræðingur, var formaður nefndarinnar. Starfsmenn nefndarinnar eru sjö. Það er samgönguráðherra sem skipar nefndina. Morgunblaðið fékk þær upplýsingar hjá samgönguráðuneytinu í gær að unnið væri að því að ganga frá skipunarbréfum nefndarfólks. Ný nefnd verður skipuð á allra næstu dögum.“