„Ég… …verð engu að síður að leiðrétta þingmanninn, markaðar tekjur áður fyrr af þeim sköttum og gjöldum sem voru á umferð eða á bíla voru fyrst og fremst bensíngjöldin og dísilgjöldin og þau hafa alltaf runnið til vegagerðar, alla tíð nema kannski á árinu 2011,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson á Alþingi fyrr í dag.
Inga Sæland hafði áður sagt þetta: „…langar mig að tala um þá fjármuni sem bifreiðareigendur og -notendur greiða í ríkissjóð í formi alls konar skatta og gjalda sem eru sennilega í kringum 80 milljarðar kr. á ári ef marka má útreikninga hjá Félagi íslenskra bifreiðareigenda sem er að finna á heimasíðu þess. Hvers vegna er þetta fé ekki aftur markað til samgöngu- og innviðauppbyggingar í stað þess að ætla að sækja aukið fé í vasa landsmanna og skattpína þá enn frekar en orðið er? Og erum við nú sennilega ein skattpíndasta þjóð veraldar.“
Sigurður Ingi talaði um samráð: „Ég hef haft frumkvæði að því núna í tvígang að boða þingmenn til sérstaks samráðs áður en að því kæmi. Það var boðað til fundar með þingmönnum höfuðborgarsvæðisins á miðvikudaginn og ég vonast til að sjá sem flesta sem geta vegna annarra starfa. Samráðið hefur verið mjög mikið. Það er verið að semja við sex sveitarfélög.“
Bergþór Ólason sem fékk öll greidd atkvæði sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar sagði: „Það er mjög sérstakt að mati þess sem hér stendur að nú eigi að undirrita þetta samkomulag, væntanlega á grundvelli markmiðsgreinar í samgönguáætlun, þar sem ríkissjóður er bundinn með þeim hætti sem hér á að gera án þess að það komi heildstætt til umræðu í þinginu. Þetta eru verulegar upphæðir að því er manni sýnist af þeim skjáskotum sem maður hefur fengið að sjá, því að ekki hefur háttvirt umhverfis- og samgöngunefnd fengið sérstaka kynningu á þessu. Nú á að kynna þetta fyrir þingmönnum á miðvikudaginn.“
Eins sagði Bergþór: „…ég vil byrja á að koma inn á að það verður varla boðað til mikils samráðs núna um miðjan dag á miðvikudaginn vegna samnings sem á að undirrita á fimmtudaginn…“