Greinar

Sigurður Ingi ekki til eftirbreytni

Hanna Katrín Friðriksson, þinflokksformaður Viðreisnar, ósátt með tregðu samgönguráðherra til að ræða frelsi leigbílamarkaði.

By Miðjan

January 31, 2018

Alþingi „Ég hef um nokkurt skeið farið falast eftir því að eiga hér sérstaka umræðu við hæstv. samgönguráðherra um frelsi á leigubílamarkaði. Mér bárust þær fréttir að hann vildi hvorki taka þá umræðu við mig í dag né á morgun, hann væri tilbúinn í umræðuna þegar skýrsla sem hann á von á um málið væri komin fram, sem ku vera væntanleg á næstunni,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í umræðu um störf þingsins.

„Skýrslan er örugglega hið fínasta plagg og ég get alveg hugsað mér að lesa hana. Það breytir því ekki að ég hafði haft hug á að fá hér umræðu á pólítískum vettvangi um pólitíska stefnu ríkisstjórnarinnar um valfrelsi neytenda á íslenskum leigubílamarkaði. Það getur vel verið að þessi viðbrögð hæstvirts ráðherra séu vísbending um að þar gangi ríkisstjórnarflokkarnir ekki í takt,“ sagði hún.

Og Hanna Katrín bætti við: „En hvað sem því veldur vona ég að hæstvirtur forseti sé mér sammála um að þessi viðbrögð hæstvirtra ráðherra séu ekki til eftirbreytni og að þeir fari ekki að temja sér að beita fyrir sig óskiluðum skýrslum eða öðrum gögnum þegar þingmenn óska eftir því að fá að eiga orðastað við þá á þingi samkvæmt þingsköpum.“

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, svaraði þingflokksformanninum: „Varðandi það sem hér var sagt um sérstakar umræður vill forseti taka fram að hann hefur þegar átt samstarf við forsætisráðherra um að beina þeim tilmælum til ráðherra að bregðast vel við óskum um slíkt. Fram að þessu hefur það gengið bærilega. Ég hygg að flestar vikur frá því að þing hóf hér störf hafi ein til þrjár sérstakar umræður verið í viku hverri.“

-sme