„Í umræðu um stefnuræðu í gærkvöldi sakaði hæstvirtur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra mig um að ljúga hér blákalt að þingheimi þegar ég sannarlega vísaði í útsenda ræðu. Ég tók eftir því að stefnuræða forsætisráðherra hafði breyst, sem er breyting frá hefð, þannig að ég vísaði sérstaklega í útsenda ræðu þegar ég vitnaði til þess að ekki hefði verið fjallað um, ekki stafkrókur, um verkföll kennara eða áhrif þeirra á börn,“ sagði Sigurður Ingi Framsóknarformaður sem gefur sig ekki í þessu máli. Hann ætlar að Jóhann Páll Jóhannsson taki orð sín til baka.
Sigurður Ingi hætti ekki hér:
„En ráðherra gekk lengra. Hann hélt því fram að engin jarðgöng hefðu verið gerð, en Dýrafjarðargöng voru opnuð 2020 og sá sem hér stendur gerði það og kláraði. Hann hélt því líka fram að engin virkjun yfir 10 MW hefði verið framkvæmd á síðastliðnum sjö árum. Það er alrangt. Sjálfur var ráðherrann, held ég, í heimsókn á Suðurnesjum um daginn, heimsótti virkjun sem verður opnuð í haust sem er 55 MW, og hefði kannski fengið upplýsingar um að Reykjanesvirkjun var opnuð 2021, sem er 30 MW virkjun. Ég fer fram á það, frú forseti, að hæstv. ráðherra gangist við því að hafa borið mig röngum sökum í gær, sakað mig um lygi þegar ég var ekki að ljúga.“