Þeir fundir sem ég átti, með tilteknu fólki, komu mér á óvart að því leiti að mér fannst þeir sem ég talaði við vera hauslausir. Hafa misst einhvern veginn fótinn og koðnað niður og menn voru einhvern veginn óundirbúnir fyrir þetta.“
Þetta sagði Sigríður Á. Andersen í Víglínunni í gær. Ekki er unnt að skilja Sigríði á annan veg en þann að þegar vandinn jókst vegna Landsréttarmálsins hafi hún misst stuðning innan ríkisstjórnarinnar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hlýtur að bera mestu sökina í þessum ásökunum Sigríðar.
Bjarni á í vanda með nokkra þingmenn utan Sigríðar. Þar ber fyrst að nefna Brynjar Níelsson og svo menn eins og Pál Magnússon og Óla Björn Kárason. Og jafnvel má nefna fleiri.
Framundan eru innanflokksátök. Velja þarf á framboðslista og víst er að hart verður tekist á í Reykjavík og á Suðurlandi. Sigríður Á. Andersen er að skapa sér stöðu gegn frjálslyndari þingmönnum. Hún rær á mið rótgróinna íhaldsmanna. Afturhaldsins í Sjálfstæðisflokknum.