Sigmundur Davíð, ybbar og BLM
„Ybbar hafa ríka tilhneigingu til að eigna sér málstað annarra, eða réttara sagt pakka sér inn í umbúðir þeirra,“ stendur í áramótagrein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Mogganum.
„Á árinu voru samtökin Black lives matter nýtt í þeim tilgangi. Harðlínusamtök sem berjast að eigin sögn m.a. fyrir marxisma, því að leysa upp lögregluna og gegn kjarnafjölskyldunni. En eins og jafnan á við um ímyndar- eða merkimiðastjórnmálin skipti innihaldið ekki máli. Aðeins nafnið.
Fyrr en varði voru stjórnmálamenn, fótboltamenn, prestar og aðrir farnir að krjúpa á kné til að lýsa yfir stuðningi (eða undirgefni) við samtökin. Sjónvarpsmenn voru neyddir til að bera merki BLM og fræga fólkið kepptist við að lýsa yfir stuðningi við samtökin,“ skrifar formaður Miðflokksinns
„Óeirðir brutust út í mörgum borgum Bandaríkjanna en þeim var jafnan lýst sem mótmælum. Hópar vopnaðs fólks (yfirleitt fyrst og fremst skipaðir hvítum stúdentum og „aðgerðasinnum“) fóru um og kröfðust þess að þeir sem urðu á vegi þeirra lýstu yfir stuðningi við BLM og réttu upp handlegginn með krepptum hnefa. Ef fólk lét ekki undan var því ógnað. Kona sem sat á veitingastað með vinafólki reyndi að útskýra að hún væri nýkomin úr kröfugöngum til að andmæla kynþáttamisrétti en vildi ekki láta skipa sér að rétta fram handlegginn. Þær skýringar voru ekki teknar gildar.“