Sigmundur Davíð skaut á Sigurð Inga í þingræðu í gærdag. Fyrir kosningar bauð Sigurður Ingi kjósendum „skosku leiðina“. Sú er ekki á dagskrá þrátt fyrir loforðin.
Sigmundur Davíð: „Í flugmálunum eins og samgöngumálunum öllum og raunar flestum stórum málasviðum þessarar ríkisstjórnar liggur vandinn ekki í því að menn geti ekki haldið fundi til að skrifa undir plögg og láta taka af sér myndir, geti ekki sent frá sér skýrslur sem sumar hverjar hljóma ágætlega, en svo verður ekkert úr framkvæmdinni. Það vantar mjög upp á stuðning við innanlandsflug á Íslandi, sérstaklega í ljósi umræðunnar eins og hún var fyrir síðustu kosningar þar sem mátti ætla að ef þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn næðu meiri hluta yrði gert einhvers konar átak. Það var talað um ýmsar leiðir, skoska leið og hina og þessa leið sem átti að hrinda í framkvæmd. Ekkert af þessu hefur enn gerst en það hefur verið skipaður starfshópur eins og hv. þingmaður lýsti. Hann á að skila einhvern tíma á þessu ári og við sjáum svo til þegar kemur að kosningum hvort nokkru verði búið að hrinda í framkvæmd.“