Sigmundur Davíð sæti opinerri rannsókn
- mútumálið er ekki hans einkamál. Segir fleiri, fyrrverandi og núverandi ráðherra, tengjast málinu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og fyrrverandi forsætisráðherra, staðhæfir að sér hafi verið boðin drjúg fjárhæð gæfi hann eftir, í hagsmunagæslu Íslands, til að hrægammasjóðirnir högnuðust meira en ella. Þetta eru magnaðar staðhæfingar.
Hitt er annað og verra. Hann kýs að hafa þessar upplýsingar einungis hjá sér. Vill ekki greina frá hver bauð hvað og hversu mikið. Hann bætir í þokuna og segir að öðrum ráðherrum þess tíma hafi líka verið boðnar mútar. Og þá um leið, dregur hann athyglina að nýjustu atburðum í málunum. Slær efasemdum um heilindi núverandi ríkisstjórnar. Eru enn boðnar mútur?
Það verður að rannsaka málið. Og það strax. Sigmundi Davíð var ekki hótað vegna þess að hann er sonur Gunnlaugs P., fyrrverandi þingmanns, eða eiginmaður Önnu Sigurlaugar eða nokkurs annars, en þeirrar staðreyndar að hann var þá valdamesti maður íslenska lýðveldisins.
Þettta er ekki einkamál Sigmundar Davíðs. Hann verður að skila málinu til þess sem á það. Það er til þjóðarinnar. Að bera fé eða vilja ber fé á forsætisráðherra er aðför að þjóðinni. Því verður, með góðu eða illu, að leiða hið sanna í ljós. Það verður að fara fram opinber rannsókn á staðhæfingum Sigmundar Davíðs og ef tilefni er til hvort öðrum ráðherrum var eða eru boðnir peningar til að ganga erinda erlendra auðmanna, gegn hagsmunum Íslands.
Best er að Sigmundur Davíð leiki fyrsta leikinn. Hann upplýsi af alvöru það sem gerðist. Ef ekki þá verður að fara fram opinber rannsókn. Það verður að leiða fram hvort alvara sé í staðhæfingum hans eða hvort hann er bara að bulla.
Sigurjón M. Egilsson.