Í langri grein í Mogga dagsins skrifar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gegn popúlisma, sem hann kallar sýndarpólitík. Sigmundur Davíð er sá íslenski stjórnmálamaður sem helst er sagði stunda þannig pólitík. Greinin fjallar annars um flóttafólk, eða förufólk, eins og hann kýs að nefna það fólk.
Stundum talar Sigmundur Davíð eins og hann telji sig vera spámann frekar en allt annað. Í lok greinar sinnar víkur hann sér nokkuð ákveðið að þannig stjórnmálum, sem hann er sagður stunda ákveðnar en aðrir, hér á landi.
„Í vestrænni stjórnmálaumræðu eru hlutirnir nú orðnir svo öfugsnúnir að þeir sem raunverulega leita lausna, leita leiða til að takast á við stærstu vandamál samtímans með það að markmiði að gera sem mest gagn, eru úthrópaðir fyrir að fylgja ekki sýndarpólitík sem þó er oft til þess fallin að gera illt verra.
Hvergi er litið til heildaráhrifa eða langtímaáhrifa. Ekki er leitað raunhæfra lausna. Þess í stað er pólitískri stefnu breytt í trúarbrögð. Svo er lagt blátt bann við því að segja, jafnvel að hugsa, það sem fellur ekki að kennisetningunni. Iðulega snúast aðgerðir ekki um raunverulega umhyggju fyrir öðrum heldur sjálfsupphafningu eða tilraunir til að koma höggi á andstæðinga.
Þegar það fer saman að keppnin snýst um að vera betri en aðrir og að hún byggist á pólitískum trúarbrögðum verður þróunin óhjákvæmilega sú að samkeppni verður um að vera hreinni í trúnni en hinir. Fyrir vikið versnar ástandið jafnt og þétt.
Það að fólk sé mótfallið óraunhæfum markmiðum þýðir ekki að það taki ekki vandamálin alvarlega. Þvert á móti. Alvöru vandamál krefjast alvöru lausna.
Á tímum skyndimiðlunar er erfitt að eiga við áhrif sýndarstjórnmála. Rök og lausnir þarfnast yfirlegu. Sýndarstjórnmál eru tafarlaus. Áhrif raunverulegra aðgerða birtast hægt og taka oft langan tíma. Sýndaráhrif birtast strax.
Ef við viljum raunverulega hjálpa fólki, ef við viljum raunverulega bjarga jörðinni, þá eru sýndarstjórnmál ekki leiðin til þess. Við slík verkefni þarf að líta til staðreynda og raunverulegra lausna.“