Á sama tíma hafa Bandaríkin, sem drógu sig út úr samkomulaginu, minnkað losun verulega.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Miðflokki skrifar grein í Moggann þar sem hann talar um falsfréttir í umhverfismálum. Hann telur margar þjóðir heims vera á villigötum.
„Falsfréttir taka á sig ýmsar myndir og eiga það til að dreifast hratt. Það reynist svo jafnan erfitt að leiðrétta rangfærslurnar þegar þær eru komnar í loftið. Falsfréttir sem byggjast á falsvísindum eru sérstakt áhyggjuefni,“ skrifar formaður Miðflokksins.
„Vandinn er ekki síst að of margir stjórnmála-, embættis- og fjölmiðlamenn eru að leita að réttum vandamálum. Vandamálin eru markmið í sjálfu sér. Afleiðingin er sú að ekki er leitað að lausnum sem raunverulega virka heldur því að viðhalda og magna umræðuna um vandamálin og bregðast við þeim á þann hátt sem er best til þess fallinn að sýna eigin dygðir.“
„Gögn Sameinuðu þjóðanna sýna að Parísarsamkomulagið um loftslagsmál muni hafa nánast engin áhrif á þróun loftslagsmála. Á sama tíma hafa Bandaríkin, sem drógu sig út úr samkomulaginu, minnkað losun verulega. Það er fyrst og fremst afleiðing af því að gasbrennsla hefur verið aukin á kostnað kolabrennslu. Slíkar lausnir má hins vegar ekki ræða. Gas er bannorð. Þess í stað er ráðist í sýndaraðgerðir á borð við vindmyllur (stálið framleitt með gríðarlegum kolabruna í Kína), bann við plastpokum (skaðlegt fyrir náttúruna) og það að moka ofan í skurði (efni í aðra grein),“ skrifar Sigmundur Davíð og endar svona: „Leitum lausna frekar en að viðhalda vandamálum.“
Grein Sigmundar Davíðs í Mogganum er mun lengri en þeir hlutar sem birtast hér.