Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra verður gestur í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni á eftir. Góð vinur minn sagði, hvað hann er alltaf hjá þér, sem er ekki rétt. Þetta verður í fimmta sinn á árinu sem hann mætir í þáttinn. Það væri tilefni til að hafa hann oftar. Hann er jú valdamesti maður landsins.
Sigmundur Davíð varð þátttakandi í stjórnmálum vegna framgöngu í baráttunni gegn því að við Íslendingar tækjum að okkur að borga Icesave. Sigmundur Davíð sagði á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á laugardag, sem mér fannst af myndum sjónvarpsstöðvanna vera frekar fámenn samkoman, en gott og vel með það, að árið 2020, sem er aðeins eftir sex ár, geti Ísland skuldað svo lágar fjárhæðir að fá dæmi verði um annað eins. Ísland verði til fyrirmyndar.
Já, fyrsta sem kom upp í huga mér orð Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, frá því á sunnudaginn var að bara vegna vaxtamunar kosti krónan okkur, það er fólkið í landinu, að lágmarki 30 milljarða. En það er ekki allt. Mér var hugsað til þess sem hefur verið rætt hér í þættinum um gjaldeyrisvaraforðann,hann kostar okkur heila glás, enda allur, eða því sem næst, tekinn að láni. Já, ég leitaði og fann þessi orð í viðtali sem ég átti við Jón Daníelsson, hagfræðing í London snemma á síðasa ári: „Ef við setjum þetta í samhengi, þá eru þessi lán hærri upphæð en allur Icesave-pakkinn. Ef við höfðum ekki efni á að taka Icesave á okkur, þá hlýtur að liggja ljóst fyrir að við höfum ekki heldur efni á að eyða þessum peningum í að styrkja krónuna. Þetta vita allir sem fylgjast með gjaldeyrismörkuðum.“
Með fullri virðingu fyrir svo mörgum, hengi ég mig á orð á Jóns Daníelssonar. Krónunnar vegna erum við að borga í gjaldeyrisvaraforða ámóta og Icesave hefði kostað okkur, með húð og hári.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður gestur minn í þættinum Sprengisandur á eftir. Um þetta verður rætt, auk annarra mála. En þetta er stórt mál. Stærra en flest.
Sigurjón Magnús Egilsson.