Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, sendir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni væna sneið í Moggagrein í dag. Skoðum aðeins:
„Miðflokkurinn, sem á kjörtímabilinu gat sér einkum frægðarorð fyrir næturvökur á Alþingi og í nærliggjandi öldurhúsum, reynir nú aftur að koma sér í umræðuna. Í þetta sinn vill formaður flokksins útdeila afgangi af ríkissjóði til allra, ekki í formi skattalækkana heldur sem gjöf. Hann vill eflaust gera líkt og átrúnaðargoð hans í Bandaríkjunum, Donald Trump, sem krafðist þess að hans undirskrift væri á endurgreiðslum til skattgreiðenda.
Hinn íslenski Trump ætlar að deila hagnaði til almennings en „ríkið“ má hirða tapið. Hugmyndirnar hafa ekki fengið verðuga athygli vegna þess að fáir taka flutningsmanninn alvarlega. En snúum tillögunum við. Í stað þess að láta nægja að dreifa hagnaðinum eins og karamellum til íbúa landsins væri vert að senda öllum íbúum reikning vegna rekstrarhalla ríkisins. Þegar sagt er frá því að hallarekstur hins opinbera hafi verið rúmlega 200 milljarðar króna árið 2020 eru tölurnar svo háar að fæstir skilja þær. En ef hvert mannsbarn fengi í framhaldinu reikning upp á um 600 þúsund krónur vegna hallans er líklegt að ýmsir létu í sér heyra.“