Sigmundur Davíð skrifar langa grein um umhverfismál, í Mogga Davíðs. Þar er að finna kafla tileinkuðum vindmyllum. Kíkjum á:
„Vindmyllur eru líklega helsta táknmynd umhverfisverndar. Evrópuríki hafa varið gríðarlegu fjármagni skattgreiðenda í að stuðla að fjölgun vindmylla. Enda birta stærstu olíuframleiðendur heims auglýsingar með myndum af vindmyllum með yfirlýsingum um að þeir vilji vera leiðandi í umhverfisvernd.
Þessi óhemjustjóru mannvirki gnæfa nú yfir héruð Norður-Evrópu. Meðalvindmylla er tvöfalt hærri en Hallgrímskirkja. Turninn er úr stáli sem er yfirleitt framleitt með stórkostlegum kolabruna í Kína og svo flutt þaðan með svartolíubrennandi skipum. Spaðarnir eru hver og einn breiðari en breiðþota og framleiddir úr gerviefnum framleiddum úr olíu. Hinar gríðarstóru undirstöður eru úr járnbentri steinsteypu sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum við framleiðsluna. Seglarnir í túrbínunum eru svo framleiddir úr fágætum málmum sem unnir eru í námum í Kína þar sem vinnslan skapar óheyrilega mengun geislavirkra efna og annarra eiturefna sem hafa eyðilagt heilu héruðin og stórskaðað menn og dýr.
Vindmyllur eru þó mjög sýnilegar og falla þannig vel að ímyndarstjórnmálum samtímans. Heildaráhrifin eru þó ekki eins sýnileg.“
Spyrja má samt hversu mikil orka fæst með hverri og einni og þá líka í hversu mörg ár hver og ein skilar orku.