Siðlausir sauðfjárbændur
Kristín Magnúsdóttir landeigandi skrifar harðorða grein í Mogga dagsins. Kristín bers gegn lausagöngu búfjár.
„Við brottrekstur úr heimatúnum verður búfé að vegarollum sem þvælast sumarlangt í sveitum í leit að gróna landinu og gæðavatninu, sem eigandinn á skv. lögum að tryggja þeim. Á þjóðvegunum drepast hundruð þeirra í bílslysum á hverju sumri og eru margar skildar eftir slasaðar í vegköntum. Það eru þó ekki eingöngu kindurnar sem missa líf, limi og heilsu þegar þær stökkva fyrir bíla á þjóðvegum landsins því á hverju ári slasast þar tugir vegfarenda þegar ökumenn í örvæntingu sveigja frá vegarollum og enda ferðalagið út í skurði eða framan á aðvífandi bílum. Í vondum árum deyr fólk við að forðast árekstur við kindur á þjóðvegum landsins,“ segir í grein Kristínar.
Nokkru síðar í greininni segir: „Til varnar siðleysinu rembist þjóðin við að girða sauðkindur úti. Það er gert með því að girða alla þjóðvegi inni, girða skógrækt inni, girða ferðastaði inni, girða garðyrkju inni, girða þjóðgarða inni, girða nytjatún inni, girða tómstundalönd inni, girða þéttbýli inni – þ.e. girða þarf allt og alla inni, af því rollurnar valsa um úti. Þannig eyðir þjóðin hundruðum milljóna króna árlega til að girða kindur úti. Að réttara sé að fjárbændur noti girðingar til að girða skepnurnar sínar inni er svo augljóst að það þarf talsmann kindaeigenda til að sjá það ekki.“
Niðurstaðan er þessi: „Ef þjóðir kepptu í sérhagsmunagæslu gætu íslensk stjórnvöld gert tilkall til verðlauna fyrir að hafa náð að viðhalda jafn ágengum og siðlausum sérhagsmunum fárra á kostnað réttarvitundar almennings, öryggis vegfarenda, dýravelferðar og eignarréttar landeigenda.“