Stjórnmál

Sextíu fundir – engar fundargerðir

By Miðjan

November 09, 2020

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi á skráningu ákvarðana og að haldið verði formlega utan um fundargerðir til að tryggja góða og gagnsæja stjórnsýslu,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins í borgarráði.

„Mikilvægt er að fundargerðir verði samþykktar og birtar. Það er skilningur fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að einungis eigi að taka fyrir mál sem ekki þola bið í neyðarstjórn. Fram kemur að neyðarstjórn hefur haldið meira en 60 fundi en ekki haldið samþykktar fundargerðir,“ segir í bókuninni.

Sjálfstæðismenn vilja að farið sé varlega með neyðarheimildir enda er gert ráð fyrir því í erindisbréfi að borgarráð sé í viðbragðsstöðu þegar neyðarástand skapast. „Ljóst er af fundargerðum neyðarstjórnar að hún hefur með tímanum farið út fyrir verksvið sitt eins og það er skilgreint. Þá hefur ekki verið kallað eftir sjónarmiðum borgarráðs og annarra fagráða þrátt fyrir að tími hafi gefist til þess. Þessir starfshættir eru ekki í samræmi við afmarkað starfsvið neyðarstjórnar og eru ekki í samræmi við 46. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. Í fylgigögnum með fundapunktunum segir orðrétt: „Fundarpunktar neyðarstjórnar hafa ekki birst opinberlega hingað til og þeir bera það með sér að oft er um að ræða skráningu á umræðum á fundum en ekki formlega ákvarðanatöku. Fundarpunktarnir hafa ekki verið samþykktir með formlegum hætti af neyðarstjórn.““