Guðni Ölversson skrifar frá Noregi:
Aðstoð ríkisstjórnar Noregs til flugfélaganna hljóðar upp á 6 milljarða nkr. Það er u.þ.b 10% af skuldapakka Norwegian. Þrátt fyrir að eiginfé Norwegian sé undir lágmarkinu, sem ríkisstjórnin krefst til að rétta félaginu björgunarbeltið, fær það 50% af pakkanum, 3 milljarða. SAS og Wideröe fá 1,5 milljarð hvort.
Sú kvöð ríkisins fylgir að Norwegian verði m.a. lappa upp á eiginfjárstöðuna og semja við lánardrottna um að vextir verði ekki greiddir af lánum næstu mánuðina. Það er því langt í land að Norwegian fljúgi með frjálst höfuð um loftin blá í framtíðinni. En aðstoð Ernu er allavega viðleitni í að hjálpa fyrirtækinu að komast upp á hnén. Þess má geta að 18 þúsund starfsmenn norsku flugfélaganna eru núna í tímabundnu launalausu leyfi frá störfum.