- Advertisement -

Sértekjur settar í svarthol í fjármálaráðuneyti

Þorsteinn Sæmundsson:
Árið 2013, þegar ég steig upp úr þeim stól, var sá sjóður býsna digur og geymdur í Seðlabankanum.

„Ég gerði að umtalsefni í fjárlagaumræðunni síðastliðið haust að stjórnmálamenn kæmu æ minna að fjárlagagerð og æ minna að því að útdeila því sem fram kemur á fjárlögum hverju sinni. Það vill svo til að ég get gert þá játningu hér að árið 2015, í árslok, tók ég þátt í því að samþykkja lög um opinber fjárlög sem er líklega ein stærsta tilfærsla á valdi frá stjórnmálunum til embættismanna sem enginn hefur kosið. Á svipuðum tíma voru allar markaðar tekjur og sértekjur settar undir einn hatt og duttu allar ofan í sama svartholið í fjármálaráðuneytinu“ sagði Þorsteinn Sæmundsson á Alþingi.

„Hvers vegna er ég að gera þetta að umtalsefni? Jú, það er vegna ástands sem nú er uppi í ofanflóðasjóði. Það vill þannig til að í einu af mínum fyrri lífum sá ég um og hafði eftirlit með innstreymi í þann sjóð. Árið 2013, þegar ég steig upp úr þeim stól, var sá sjóður býsna digur og geymdur í Seðlabankanum. Með þessum breytingum sem gerðar voru hvarf þessi sjóður ásamt fleirum inn í eitthvert svarthol í Seðlabanka. Samt sem áður er stjórn yfir sjóðnum. Það eru starfsmenn þar, eða starfsmaður, en ekki virðist hafa verið hljómgrunnur fyrir því sem þeir ágætu menn höfðu fram að færa vegna þess að peningarnir eru til og voru til og það var ekkert að vanbúnaði að gera nauðsynlegt átak í því að byggja upp ofanflóðavarnir,“ sagði Þorsteinn.

„Þetta ætti að vera okkur til lærdóms um það að það kann ekki alltaf góðri lukku að stýra að færa vald frá stjórnmálum til embættismanna sem ekki eru kosnir. Það kann heldur ekki góðri lukku að stýra þegar eftirlitshlutverk þingmanna er gert erfiðara eins og í þessu tilfelli. Menn virðast ekki hafa gert sér grein fyrir því að þarna er nóg fé til til að vinna nauðsynlegar endurbætur.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: