- Advertisement -

SÉRSTAKUR ÁRANGUR SÓSÍALISTA Í KÖNNUN GALLUP

Flokkur sem ekki hefur boðið sig fram og á ekki þingmenn, hefur ekki mælst áður með fylgi sem dugar fyrir þingsætum á miðju kjörtímabili.

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

5,3% fylgismæling Gallup á Sósíalistaflokki Íslands í janúar er nokkuð söguleg. Flokkur sem ekki hefur boðið sig fram og á ekki þingmenn, hefur ekki mælst áður með fylgi sem dugar fyrir þingsætum á miðju kjörtímabili. Það sem kemst næst þessu er Viðreisn sem mældist með 7,2% í maí 2016, eftir að boðað var til kosninga í kjölfar birtingar Panamaskjalanna (hér er miðað við kannanir MMR, þar sem aðgengi að upplýsingum hjá Gallup er vont). Viðreisn átti þá engan starfandi þingmann, var nýstofnaður og endaði með 10,5% í kosningunum um haustið.

Annað dæmið á þessari öld um flokk sem ekki hafði boðið fram og átti ekki þingmenn er Borgarahreyfingin sem mældist inni á þingi allra síðustu dagana fyrir kosningarnar 2009. Flokkur fólksins fór síðan yfir 5% þröskuldinn sumarið 2017, en flokkurinn hafði boðið fram í kosningunum árið áður.

Önnur dæmi af nýjum flokkum á þessari öld sem mældust yfir 5% þröskuldinum eru allt dæmi um flokka sem stofnaðir voru af þingmönnum eftir klofning í þeirra gömlu flokkum: Björt framtíð, Samstaða, Hreyfingin og Píratar.

Dæmi af síðustu öld er enn færri. Frjálslyndi flokkurinn 1995, Kvennalistinn 1987 og Þjóðvarnarflokkurinn 1953 eru einu dæmin um ný framboð utan fjórflokksins sem ekki áttu þingmenn fyrir. Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, var reyndar fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hjá Viðreisn. Aðrir nýir þingflokkar voru byggðir í kringum þingmenn sem höfðu yfirgefið sína gömlu flokka: Þjóðvaki, Borgaraflokkurinn, Bandalag jafnaðarmanna og Samtök frjálslyndra og vinstri manna.

Mikill fjöldi flokka hefur verið mældur af MMR frá Hruni án þess að mælast nokkru sinni með fólk á þingi. Hér er yfirlit yfir þá flokka:

Dögun mældist aldrei með meira fylgi en 3,8% þrátt fyrir að hafa verið á matseðli MMR í rúm sex ár. Dögun mældist með mest fylgi skömmu eftir kosningarnar 2013, en lengst af mældist flokkurinn aðeins með um eitt prósent fylgi og iðulega þar undir.

Lýðræðisvaktin mældist með 3,6% skömmu fyrir kosningar 2013 en með um og undir eitt prósent næstu árin.

Hægri grænir mældust með 3,1% skömmu fyrir kosningar 2013 en mun minna fylgi eftir þær kosningar og í þau tæpu fjögur ár sem flokkurinn var formlega mældur.

Flokkur heimilanna mældist eitt sinn með 3,1% fylgi en oftast aðeins með um og undir einu prósenti.

Íslenska þjóðfylkingin mældist með 2,8% skömmu fyrir kosningar 2016, oftast með miklum mun minna fylgi það rúma ár sem flokkurinn var á matseðli MMR.

Sturla Jónsson bauð sig fram undir lista með eigin nafni 2013 en mældist með mesta fylgið skömmu fyrir kosningar 2016, 2,1%. Hann bauð sig hins vegar fram undir merkjum Dögunar árið 2016 en hlaut ekki brautargengi.

Regnboginn bauð fram 2013 og var mældur til 2016, fór einu sinni í 1,1% en mældist oftast með miklu minna fylgi, stundum ekki neitt.

Alþýðufylkingin hefur verið mæld hjá MMR síðan 2013 en aldrei farið yfir 1,0% fylgi og lengst af verið vel undir því.

Landsbyggðarflokkurinn bauð fram 2013 og var mældur fram að kosningum 2016, fékk hæst 1,0% en oftast mun minna fylgi.

Húmanistaflokkurinn var mældur frá 2013 til 2017 en mældist aldrei með meira fylgi en 0,7% og oftast með minna en það.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: