Maðurinn, sem nú vill ganga úr VR, er á einhverju róli, sem erfitt er að skilja.
Árni Gunnarsson skrifar:
Stöð 2 birti viðtal við starfsmann Flugleiða, sem kvaðst ætla að segja sig úr VR vegna viðbragða formanns félagsins í kjaradeilu Flugleiða og flugfreyja. Líklega er maðurinn að kalla eftir því, að fleiri félagar VR, sem starfa hjá Flugleiðum, segi sig úr félaginu. Óánægja mannsins stafar af viðbrögðum formanns VR til að styðja við bakið á flugfreyjum í kjarabaráttu þeirra.
Varla eru þetta heppileg viðbrögð nú þegar samningar hafa náðst og öllu máli skiptir fyrir báða samningsaðila, að friður náist um rekstur félagsins og komið í veg fyrir, að erlendir fjármagnseigendur nái meirihluta í eignarhaldi.
Það hefur verið Íslendingum tilefni stolts og ánægju, að geta treyst á þjónustu flugfélags, sem hefur aðalstöðvar sínar á Íslandi og kennir sig við landið. Sjaldan hefur verið eins mikilvægt, að friður náist um reksturinn og traust til félagsins eflist. Maðurinn, sem nú vill ganga úr VR, þegar erfið kjaradeila hefur verið leyst með samningum, er á einhverju róli, sem erfitt er að skilja.