- Advertisement -

Segir nýja forystu skapa óstöðugleika

Þingmaður segir nýja forystu í verkalýðshreyfingunni skapa óstöðugleika og undirbúi aðgerðir. Hann segir að framundan sé ófyrirséðar áhrif á þróun opinberra fjármála. Segir augljóst að dragi til tíðinda hjá ASÍ í haust.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði á Alþingi að hann telji komandi kjaraviðræðum ekki gefinn nægur gaumur. Hann var þá að ræða fjármálastefnu Bjarna Benediktssonar.

„Fjármálastefnan gerir ráð fyrir stöðugleika,“ sagði þingmaðurinn. „Hins vegar eru teikn á lofti um að óstöðugleiki sé framundan vegna þeirra sviptinga sem átt hafa sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu. Það er breytt staða innan hreyfingarinnar. Komið hafa fram skýr skilaboð um nýjar áherslur og stefnu. Þær lúta ekki síst að kröfum um miklar kerfisbreytingar eins og á fjármálamarkaðnum.“

Krónur ekki prósentur

Birgir Þórarinsson sagðist hafa hitt að máli formenn tveggja stórra verkalýðsfélaga. Hann segir að þar hafi komið skýrt fram; „…að það samtal sem stjórnvöld hafa átt við verkalýðshreyfinguna um réttindi launafólks í atvinnuleysi og fæðingarorlofi væru ekki efst á kröfugerðarlista hins almenna launamanns. Krafan er um launahækkanir í krónum talið en ekki prósentum. Ásamt kröfunni um lægri vexti. Menn hafi verið tilbúnir að fórna sér fyrir vaxtakröfu lífeyrissjóðanna. En svo væri ekki lengur. Vextir og verðtrygging eru stóra málið hjá vinnandi fólki í dag.“

Þú gætir haft áhuga á þessum
„Krafan er um launahækkanir í krónum talið en ekki prósentum.“

Nýjar kynslóðir taka við

„Nýir foringjar eru í verkalýðshreyfingunni og nýjar kynslóðir taka við,“ sagði Birgir þingmaður á Alþingi.

„Mér er kunnugt um að nú þegar sé farið að teikna upp aðgerðir. Menn gera sér ekki grein fyrir því hvað gæti gerst í þessum efnum. Lágmarkstaxtinn í dag er 257.000 kr. á mánuði. Það eru skammarlega lág laun. 25 prósent allra launamanna eru með undir 400.000 kr. á mánuði. Staðan er gerbreytt innan verkalýðshreyfingarinnar og hún er róttækari en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Það sjáum við greinilega á því sem gerst hefur í VR og Eflingu, svo dæmi séu tekin. Þessi tvö félög eru með meirihluta í ASÍ. Því er augljóst að það mun draga til tíðinda í forystumálum ASÍ í haust,“ sagði hann.

Gerbreyting á verkalýðshreyfingunni

Birgir Þórarinsson.
„Hins vegar eru teikn á lofti um að óstöðugleiki sé framundan.“

Að endingu sagði Birgir um þetta breytingarnar í forystu verkalýðshreyfingarinnar:

„Ríkisstjórnin getur ekki horft fram hjá þessum miklu breytingum sem við höfum orðið vitni að innan verkalýðshreyfingarinnar. Það lýtur að því sem við höfum rætt hér um, þ.e. grunngildunum. Ófyrirséðar afleiðingar og áhrif á þróun opinberra fjármála. Það tengist og hefði verið mjög mikilvægt að horfa til þess í þessari stefnu. Orðið hefur gerbreyting á verkalýðshreyfingunni sem við höfum ekki séð í áratugi. Það verður að taka tillit til þess í fjármálastefnunni. Það verður að greina stöðuna og þau áhrif sem hún mun hafa.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: