„Eldgosið í Fagradalsfjalli var mjög kurteis viðvörun, því við vitum að það geta verið öflugri gos á Reykjanesskaga. Þetta gæti orðið stór þáttur í lífi okkar,“ segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga undanfarnar vikur.
Þorvaldur segir að við ættum að undirbúa okkur undir að eiga við eldgos á Reykjanesskaganum ótt og títt næstu áratugi. hann og telur að síðasta gos hafi verið viðvörun. Þetta er í takt við það sem aðrir sérfræðingar hafa varað við um hættu og alvarleika næsta eldgoss á Reykjanesinu.
Sjá einnig: Páll Einarsson jarðfræðingur: „Næsta gos verður alvarlegri atburður“
Ný gervihnattamynd staðfestir áframhaldandi landris norðvestan Grindavíkur og kvikusöfnun á fjögurra til fimm kílómetra dýpi við fjallið Þorbjörn.
„Landrisið er á fullri ferð núna. Þetta er ekki hratt, sérstaklega. Þetta eru tveir millimetrar á dag. En ef það heldur lengi áfram þá getur þetta orðið að gosi,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Aðspurður hverja hann telji líklegustu gosstaðina svarar hann:
´ „Mestar goslíkur að mínu mati eru í sprungusveimnum sem liggur út frá þessu svæði, til norðausturs eða til suðvesturs. Hann liggur upp í Vogaheiði til norðausturs, vestur þar. Hann fer þá undir Svartsengi og til norðausturs, undir Arnarseturshraunið og upp í Vogaheiðina,“
Sjá einnig: Björn birtir lista yfir allt sem gæti eyðilagst í gosinu við Svartsengi
Þorvaldur segir skjálftavirknina svipa til þeirrar sem var undanfari eldgossins í Fagradalsfjalli. Þetta eru líklegustu staðirnir að hans mati.
„Það eru náttúrulega mestu líkurnar á að það verði gos í grennd við þar sem skjálftavirknin hefur verið hvað mest, á stöðum líkt og Eldvörpunum, sem eru rétt vestan við Grindavík og í Þorbirni, þar sem landið hefur verið að rísa. Svo er einnig búin að vera skjálftavirkni rétt við Sveifluhálsinn og við Kleifarvatn,“
Kæmi til eldgoss segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðfræðingur líklegast að það yrði á þeim slóðum þar sem land rís nú. Á þeim slóðum eru miklir innviðir: raforkuver í Svartsengi, Bláa lónið, Grindavíkurvegur og hitaveitulagnir.
„Þannig getur orðið mikið tjón þó að það yrði ekki mjög stórt gos. Þetta er svona staður þar sem geta orðið miklar skemmdir,“ segir Magnús Tumi.
Sjá einnig: Enn skelfur jörð við Svartsengi – Magnús Tumi: „Staður þar sem geta orðið miklar skemmdir“
Jarðeðlisfræðingurinn Ólafur G. Flóvens, fyrrum forstjóri Íslenskra orkurannsóknar, tekur undir með Magnúsi Tuma. „Það segir manni bara það að það hlýtur að vera mikil hætta á eldgosi í kringum Grindavík, í Svartsengi og í Eldvörpum við núverandi aðstæður,“ segir Ólafur og bætir því við að hefjist eldgos við Svartsengi yrðu Bláa lónið og orkuverið í Svartsengi í mikilli hættu vegna hraunrennslis. Mestar áhyggjur hafi hann þó af Grindavík.