„Enda þarf það í sjálfu sér ekki endilega að vera harmsefni.“
Davíð Oddsson sendir flokksforystu og þingliði Sjálfstæðisflokks væna sneið í dag. Hann er sér jafnvel fyrir sér endalok Sjálfstæðisflokksins.
Leiðarinn byrjar svona: „Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að fóstureyðingarlögin, sem eru önnur af tveimur afmælisgjöfum flokksforystu til fólksins síns, séu komin úr Valhöll, herbúðum þess flokks.“
Deila má um smekkinn að draga Svandísi Svavarsdóttur inn í innan flokks átökin í Sjálfstæðisflokki. En hvað um það. Af nógu öðru er að taka.
Áfram með leiðarann: „Það vekur nokkra undrun, þótt viðurkenna megi að það sé fátt sem veki undrun nú orðið. Uppfinningamenn hafa lengi reynt að finna upp eilífðarvélina og ekki tekist. Stjórnmálaflokkar eru ekki eilífir og hafi þeir ekki lengur fyrir neinu að berjast styttist í tilverunni og þýðir ekki að fárast yfir því. Enda þarf það í sjálfu sér ekki endilega að vera harmsefni.“
Hér er ekki töluð nein tæpitunga.
Síðar í leiðaranum rekur Davíð raunir flokka í Bretlandi og fer síðan til Danmerkur:
Danski Íhaldsflokkurinn var stundum kallaður systurflokkur Sjálfstæðisflokksins, þótt ekki væri það nákvæmt. Hann skipti lengi verulegu máli í dönskum stjórnmálum. Seinast var Poul Schlüter, forsætisráðherra landsins, úr þeim flokki og sat í 10 ár rúm, ’82-’93 sem forsætisráðherra og hefur það met ekki verið jafnað af þeim forsætisráðherrum sem setið hafa síðan. Íhaldsflokkurinn gerði aðild að ESB að aðal og jafnvel eina máli sínu. Flokknum er nú spáð þriggja prósenta fylgi í kosningunum í næsta mánuði í Danmörku og því ekki útilokað að hann fái menn á þing.