Seilst með grófum hætti í vasa borgarbúa
Hér er um fyrirtæki að ræða sem eru eins og ríki í ríkinu.
„Þetta er hið mesta klúðursmál og spurning hvort hægt sé að leiðrétta þetta til baka í tíma. Af þessari oftöku verður að láta og tryggja að gerist aldrei aftur. Seilst hefur verið í vasa borgarbúa með grófum hætti,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, á fundi borgarráðs þegar rætt var um úrskurð ráðuneytis sveitarstjórnarmála, um að rangt hafi verið staðið að innheimtu vatnsgjalds.
„Frá þeim tíma sem úrskurður ráðuneytisins nær til hefur vatnsgjald í Reykjavík tvisvar sinnum verið lækkað umtalsvert; um 11,2% í byrjun árs 2017 og aftur um 10% í byrjun árs 2018. Í framhaldi af úrskurðinum hefur Orkuveitan ítrekað óskað eftir leiðbeiningum frá ráðuneytinu um hvað leggja skuli til grundvallar við álagningu vatnsgjalds,“ segir í bókun meirihlutans.
„Þetta er ein staðfestingin enn á því hvernig sum þessara fyrirtækja sem kallast B-hluta fyrirtæki virka. Það hefur ekki gengið vel með mörg þeirra. Þar eru stórar ákvarðanir teknar án þessa að eigendur hafi nokkra aðkomu og varla er hægt að kalla það lýðræðislegt. Þetta fyrirtæki sem fleiri fyrirtæki undir svokölluðum B-hluta ættu einfaldlega að heyra beint undir borgarráð og vera þannig í nánari tengslum við borgarbúa. Hér er um fyrirtæki að ræða sem eru eins og ríki í ríkinu. B-hluta fyrirtæki eru orðin svo aftengd borginni að fólk gleymir að þau eru borgarfyrirtæki,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir.