Stjórnmálaályktun aðalfundar Félags sjálfstæðismanna í Árbæ, Selási, Ártúns- og Norðlingaholti
Félag sjálfstæðismanna í Árbæ, Selási, Ártúns- og Norðlingaholti lýsir yfir ánægju með áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna. Stjórnarsamstarf þessara flokka er líklegast til að stuðla að áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu og bættum lífskjörum landsmanna.
Mikill hallarekstur ríkissjóðs er þó áhyggjuefni og er skorað á ríkisstjórnina að ná jafnvægi í rekstri sem fyrst með ábyrgri fjármálastjórn. Mikilvægt er að staðið verði við fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að skattar verði ekki hækkaðir.
Félagið skorar á ríkisstjórnina og borgaryfirvöld að taka til gagngerra endurdurskoðunar fyrirliggjandi áætlunum um borgarlínu. Sýnt hefur verið fram á að verkefnið er bæði gífurlega kostnaðarsamt og óarðbært. Áætlanir um borgarlínu virðast vera meingallaðar en myndu kosta yfir hundrað milljarða króna sem yrðu fjármagnaðar með auknum álögum á skattgreiðendur. Ein meginhugmynd borgarlínu felst í því að fækka verulega núverandi akreinum almennrar umferðar. Slíkar þrengingar myndu enn auka á umferðartafir sem myndu til viðbótar valda Reykvíkingum ómældum kostnaði vegna aukinna tímatafa í umerðinni sem og óþægindum og heilsutjóni vegna aukinnar mengunar. Slíkar umferðartafir myndu koma sér afar illa fyrir íbúa efri byggða borgarinnar og gjaldtaka vegna verkefnisins myndi einnig leggjast þyngst á þá samkvæmt þeim hugmyndum sem komið hafa fram um framkvæmd gjaldtökunnar. Nærtækara er að efla almenningssamgöngur í Reykjavík með minni fyrirhöfn og tilkostnaði með því að bæta núverandi kerfi strætisvagna sem er mjög vannýtt.
Fyrir hönd félagsins:
Guðrún Helga Theodórsdóttir.