- Advertisement -

Segja Bjarna hafa skaðað Seðlabankann

Telja Hörður og Andrés að gremja ráðherra kunni að skýrast af langvarandi stirðu sambandi milli Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins í kjölfar þess að Ásgeir Jónsson tók að láta til sín taka á vettvangi bankans.

Frá Dagmálafundi þeirra Harðar, Andrésar og Stefáns.
Mynd; Morgunblaðið.

Hörður Ægisson blaðamaður finnur að framgöngu Bjarna Benediktssonar. Hörður var gestur þeirra Andrésar Magnússonar og Stefáns Einars Stefánssonar í Dagmálum Moggans. Þar kom fram hörð gagnrýni á formanninn, Bjarna Benediktsson.

„Segir Hörður að ummæli ráðherrans hafi komið mjög á óvart og að einsdæmi sé að ráðherra tali með þessum hætti. Flest bendi til þess að með framgöngu sinni hafi ráðherrann skaðað ásýnd Seðlabankans, m.ö.o. gert það sem hann hefur sakað bankann um að gera sjálfum sér. Andrés tekur í sama streng og bendir á að áður hafi komið fram gagnrýni á fjármálaráðherra fyrir að höggva í svipaðan knérunn. Það hafi m.a. verið gert á síðum Morgunblaðsins í skammlífri fjármálaráðherratíð Benedikts Jóhannessonar árið 2017, í ráðuneyti Bjarna Benediktssonar. Þá hafi Benedikt talað krónuna niður en með upptöku evru. Það hafi verið talið óheppilegt fyrir mann í hans stöðu,“ segir í frétt um samtal þeirra þriggja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Í þættinum kemur einnig fram að við kynningu á nýjustu vaxtaákvörðun Seðlabankans í liðinni viku hafi tónninn í garð ríkisstjórnarinnar verið nokkuð mildari en við fyrri ákvarðanir. Telja Hörður og Andrés að gremja ráðherra kunni að skýrast af langvarandi stirðu sambandi milli Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins í kjölfar þess að Ásgeir Jónsson tók að láta til sín taka á vettvangi bankans. Ár líður nú af skipunartíma hans og velta nú ýmsir vöngum yfir stöðu Ásgeirs við þau tímamót sem hratt nálgast. Bendir Andrés á að það sé forsætisráðherra en ekki fjármálaráðherra sem skipi í embættið enda heyri málefni Seðlabankans undir fyrrnefndan ráðherra. Báðir eru þeir sammála um að óviturlegt væri að skipta um mann í brúnni við núverandi ástand. Seðlabankinn sé í miðjum klíðum að kveðja verðbólgudrauginn niður og að almennt sé talið að Ásgeir hafi staðið sig vel þótt gefið hafi á bátinn á undanförnum misserum, bæði sökum kórónuveirunnar og annarrar óáranar sem eigi upptök sín í Kreml.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: