- Advertisement -

Segist hafa misst heilsuna vegna ofsókna Sjálfstæðisflokksins

Sigurður heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji alls ekki takmarka rekstur Ríkisútvarpsins heldur að stýra stofnuninni og nota í eigin þágu. Og hann hafi komist upp með áratugum saman.

Gunnar Smári skrifaði á vef Samstöðvarinnar:

Sigurður G. Tómasson, þriðji dagskrárstjóri Rásar 2, var gestur Ólafs Páls Gunnarssonar ásamt Kristínu Ólafsdóttur í Röddum rásar tvö, upprifjunarþáttaröð Ríkisútvarpsins í tilefni af 40 ára afmæli Rásar tvö síðar á árinu. Þar hélt Sigurður því fram að hann hafi setið undir linnulausum þrýstingi frá Sjálfstæðisflokknum meðan hann var að störfum og að lokum misst vinnuna vegna pólitískra afskipta flokksins, sem hafi þá eins og alltaf ráðgast með Ríkisútvarpið að vild. Staða Sigurðar var auglýst án þess að hann hefði sagt upp eða verið sagt upp. Sigurður segir í viðtalinu að álagið á þessum tíma hafi valdið því að sykursýkin sem hann glímir við hafi þróast hraðar, veiki sem síðar leiddi til þess að hann missti sjónina.

Það er nokkur hiti í spjallinu og augljóst að spyrillinn Ólafur Páll, betur þekktur sem Óli Palli, þykir nóg um. En Sigurður gaf sig ekki að lýsti yfirgengilegri afskiptasemi Sjálfstæðisflokknum af öllu er við kom rekstri Ríkisútvarpsins. Og Kristín tók undir þetta, benti meðal annars á að meirihluti útvarpsráðs hafi mælt með ráðningu hennar sem eftirmanns Sigurðar, en síðan hafi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verið ráðin, innvígð og innmúruð Sjálfstæðisflokkskona með svo til enga reynslu úr fjölmiðlum.

Pólitískur þrýstingur Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpið á árum Sigurðar kom til umræðu á Alþingi í október 1994. Þá hafði Sigurður rekið Illuga Jökulsson sem pistlahöfund eftir langvarandi þrýsting Sjálfstæðisflokksfólks, sem meðal annars sakaði Illuga um að hafa komið Reykjavíkurlistanum til valda í Reykjavík vorið áður. Í síðasta pistli sínum sagði Illugi í lokin að Sigurður G. Tómasson hafi sagt við sig: Ég nenni ekki lengur að hlusta á kvartanir valdhafandi manna út af þeim. Svavar Gestsson tók málið upp á þingi og er augljóst af þeim að þessi afskipti flokksins hafa verið langvarandi. Lesa má umræðurnar hér: Utandagskrárumræða um málefni Ríkisútvarpsins.

Mikil og heit viðbrögð voru við brottrekstri Illuga og var Hannes Hólmsteinn Gissurarson líka látinn hætta pistalesti og dregið úr pólitískri umræðu á Rás tvö.

Í samtalinu kemur fram að Davíð Oddsson, þá formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, hafi neitað að koma í viðtöl nema einn og þá aðeins til útvarpsfólks sem flokkurinn hafði fengið ráðið til útvarpsins. Sigurður heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn vilji alls ekki takmarka rekstur Ríkisútvarpsins heldur að stýra stofnuninni og nota í eigin þágu. Og hann hafi komist upp með áratugum saman.

Hér má hlusta á viðtal Óla Palla við þau Sigurð og Kristínu. Samtalið er að stóru leyti innsýn inn í pólitísk afskipti Sjálfstæðisflokksins af stofnuninni: Raddir Rásar 2, sjöundi þáttur.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: