„Örvæntingarfull pólitísk framganga litlu Samfylkingarinnar heldur áfram að vekja athygli.“
Gunnar Bragi Sveinsson heggur fast að Viðreisn í grein í Mogganum í dag. Hann segir:
„Viðreisn er gott dæmi um flokk sem sinnir stefnulaust sérhagsmunum kostenda flokksins, eltir tíðarandann og þá sem eru virkir í athugasemdum, líkt og móðurskipið Samfylkingin.“ Gunnar Bragi uppnefnir Viðreisn og kallar hana; „litlu Samfylkinguna.“
Gunnar Bragi sem er varaformaður og þingflokksformaður Miðflokksins segir einnig:
„Hugsanlega er það svo að í huga Viðreisnar eru sérfræðingar ekki sérfræðingar nema þeir starfi innan Evrópusambandsins eða séu á snærum Félags atvinnurekenda. Spá fræðimanna um að sýklalyfjaónæmi eitt og sér verði stærri valdur að dauða en krabbamein eftir um þrjátíu ár virðist alltént ekki ná þeirra athygli. Það mætti segja að hægt hefði verið að sjá þetta fyrir. Af fullkominni hræsni afhentu skammlífir ráðherrar flokksins í embættum lýðheilsuverðlaun og héldu ræður með innantómum orðum sem var fórnað um leið og færi gafst fyrir forsendur hinna ýtrustu viðskiptahagsmuna Félags atvinnurekenda.“
GBS: „Örvæntingarfull pólitísk framganga litlu Samfylkingarinnar heldur áfram að vekja athygli. Nú síðast þegar þau tala ítrekað gegn sjónarmiðum sérfræðinga í þágu sérhagsmuna innflutningsaðila. Forsvarsmenn flokksins vefengja þannig sjónarmið heilbrigðis- og lýðheilsusérfræðinga í æ fleiri málum.“
Hér er ein tilvitnun enn í grein Gunnars Braga:
„Þetta hefur verið sérstaklega áberandi þegar kemur að varnaðarorðum gegn aukinni áfengisneyslu sem fylgir svokölluðu brennivínsfrumvarpi þeirra og þeirri stóru lýðheilsuvá sem fylgir auknu sýklalyfjaónæmi með óheftum innflutningi á ferskum matvælum. Þá hefur orðræða þeirra varðandi nýlegar tillögur um aðgerðaáætlun gegn sykurneyslu Íslendinga verið undarleg. Fjórtán tillögur Embættis landlæknis hafa fengið falleinkunn flokksins þrátt fyrir að sumar þeirra væru til þess fallnar að stuðla að aukinni lýðheilsu. Tillögur svo sem að upplýsa neytendur betur, þótt ekki sjái undirritaður ástæðu til að fara eftir tillögum eins og að hækka skatta umfram það sem nú nú er.“