„Sjálfstæðisflokkurinn geldur fyrir þá óánægju og það ástand sem ríkir vegna biðlista og „neyðarástands“ á bráðadeildum. Afneitun á vanda eyðir ekki óánægju,“ skrifar Vilhjálmur Bjarnason, fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, í Moggagrein í dag.
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur á að skipa herdeild fólks, sem er fullfært um að móta stefnu flokksins í heilbrigðismálum nú þegar. Ef vandinn er einungis sá að erfitt er að koma sjúklingum á langlegudeildir, þá verður að viðurkenna þann vanda,“ skrifar Vilhjálmur.
Vilhjálmur hefur áhyggjur af stöðu flokksins nú þegar óðum styttist í kosningar og markar sjálfum sér pláss á þeim bás. „Rekstur heilbrigðiskerfisins er ekki einfaldur og mörgum finnst langt í réttlæti. Það er full þörf á að fjalla áfram um þennan málaflokk. Það mun ég gera því óánægja er ekki viðunandi fylgifiskur í næstu kosningum.“