„Utanríkisráðherra reynir að þóknast ritstjórum Morgunblaðsins með því að halda því fram að Ísland sé ekki nú þegar aðili að stærstum hluta Evrópusamstarfsins. Því að við innleiðum ekki nema 13,4% af reglum þess. Annar af ritstjórum blaðsins var á sinni tíð fyrstur til að nota þessa talnaleikfimi,“ skrifar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í sitt gamla málgagn, Moggann.
„Auðvitað veit utanríkisráðherra að fjöldi lagareglna er ekki góður mælikvarði á þau umsvif sem að baki búa. Með sömu rökum væri unnt að halda því fram að ferðaþjónusta hefði óverulegt vægi í þjóðarbúskapnum af því að ríkisstjórnin hefur bara flutt eitt frumvarp sem snertir þá atvinnugrein sérstaklega.
Til frekari skýringar má benda á að flestar reglur Evrópusambandsins eru á sviði landbúnaðar. Margar þeirra gilda í stuttan tíma og eru því settar aftur og aftur. Á innri markaðnum eru reglurnar í miklu ríkari mæli til lengri tíma. Af sjálfu leiðir að fjöldi reglna er ekki mælikvarði á umfangið,“ skrifar Þorgerður Katrín.
Svo er skotið á ritstjórann:
„Kjarni málsins er sá að við lifum í öðrum heimi en í kalda stríðinu þótt sumir vilji halda dauðahaldi í þá tíma. Við stöndum andspænis nýjum áskorunum til þess að tryggja íslenskum fyrirtækjum sömu stöðu og keppinautarnir njóta. Ný skref í alþjóðasamvinnu geta einfaldlega hjálpað okkur til þess að ná settum markmiðum.“
Þorgerður Katrín endar greinina svona, en því fer fjarri að öll greinin sé birt hér: „Kyrrstaðan er versti óvinur atvinnulífsins um þessar mundir. Það er því hættulegt að láta klofninginn í Sjálfstæðisflokknum ráða því hvaða mál komast á dagskrá stjórnmálanna.“