Fréttir

Segir svarta listann verri en þann gráa

By Miðjan

November 16, 2019

Bjarni Benediktsson þurfti svo sem ekki að beita sér mikið í spillingarumræðunni á Alþingi. Logi Einarsson virðist samt hafa komið við kaunin í honum. Þeir „tókust“ á þegar Logi kallaði Bjarna til svara vegna orðspors Íslands vegna spillingar.

„Hér er grái listinn nefndur. Má ég vekja athygli háttvirts þingmanns á því að það er til annar listi sem heitir svarti listinn? Grái listinn er fyrir þau lönd sem eru til athugunar vegna þess að þau hafa ekki uppfært lög og sett í farveg verkferla sem kallað er eftir. Gráa listunin er ekki dæmi um spillingu á Íslandi, háttvirtur þingmaður, þú ert bara í ruglinu með þá nálgun á það mál.“

Bjarni gaf, eða var gefinn, línan sem stjórnarsinnar og margir aðrir hafa ákveðið að taka í Samherjamálinu:

„Það er sömuleiðis algjör þvæla í mínum huga að segja að það sé íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu að kenna hvernig atburðarásin hefur verið í þessu tiltekna máli. Því verður ekki haldið fram um þessa ríkisstjórn að hún ætli ekki að taka þetta mál alvarlega. En við ætlum að fara í rótina, þangað sem rétt er einbeita sér.“

Næst skaut Bjarni púðurskotum að Loga: „Það kemur ekki á óvart að Samfylkingin sé strax komin út í skurð, talandi um að íslenska fiskveiðistjórnarkerfið sé vandamálið og svo heyrir maður líka, ég hef víst heyrt talað um fiskveiðistjórnarkerfið og svo er auðvitað ein lausn sem Samfylkingin kemur alltaf með í öllum málum, að hækka skatta.“