- Advertisement -

Segir Svandísi sitja á skýrslunni

Þessi vinnubrögð eru einfaldlega ekki boðleg.

„Forsvarsfólk hjúkrunarheimila landsins hefur undanfarin ár verið eins og hrópandinn í eyðimörkinni, hefur án árangurs reynt að ná eyrum stjórnvalda með erfið, óboðleg raunar, rekstrarskilyrði hjúkrunarheimila sem eru rekin með þjónustusamningi við ríkið. En það var eitt sem náði í gegn um síðir og það er beiðni hjúkrunarheimila um sérstaka greiningu á rekstrarkostnaði heimilanna,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson á Alþingi.

„Heilbrigðisráðherra hlustaði og stofnaði starfshóp í ágúst síðastliðnum. Hópurinn átti að skila skýrslu fyrir 1. nóvember á síðasta ári en svo fór að hún var ekki tilbúin fyrr en fyrir mánuði. Skýrslunnar hafði verið beðið með eftirvæntingu, enda höfðu bæði heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra ítrekað sagt að niðurstöður skýrslunnar væru forsendur aukinnar fjárveitingar.“

Hanna Katrín var ekki hætt: „Og hvað segir í skýrslunni? Við vitum það ekki vegna þess að heilbrigðisráðherra, sem nota bene á tvo fulltrúa í vinnuhópnum, var ekki sáttur við niðurstöðuna. Þess vegna hefur skýrslan núna verið í heilan mánuð í ritskoðun í heilbrigðisráðuneytinu. Þessi tími, heill mánuður, bendir til þess að það gangi ekki áfallalaust fyrir sig að breyta skýrslunni. Hún hefur líklega verið alveg stórvel unnin, ekki hefur verið farið rangt með staðreyndir, greint hefur verið frá raunverulegri stöðu og raunverulegum kostnaði hjúkrunarheimila við að sinna þjónustukröfum ríkisins. Mögulega hefur niðurstaðan líka verið sú að ríkið þurfi að borga fyrir þá þjónustu sem það vill kaupa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Herra forseti. Íbúar hjúkrunarheimila, fólkið sem fyrir áratugum lagði grunninn að því samfélagi sem við búum í núna, eiga annað og betra skilið en að vera notaðir sem peð í slag stjórnvalda við sjálfstætt starfandi stofnanir. Hvorki Covid né komandi kosningar réttlæta þessi vinnubrögð. Þau eru einfaldlega ekki boðleg.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: