Forsætisráðherrann fyrrverandi, Davíð Oddsson, er ekki ýkja hrifinn af Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata og hversu mikið aðhald hann veitir með fyrirspurnum sínum á þingi.
„Er ekki brýnt að Björn Leví spyrji að því hver kostnaðurinn er við að svara fyrirspurnum hans?“ Þannig skrifar Davíð í Staksteina dagsins í dag. Einsog við vitum var það vegna fyrirspurna Björns sem þjóðin fékk að vita um aksturspeninga þingmanna. Sýnilegt er það heillaði ekki alla.
Davíð er þó þessarar skoðunar, sem og Björn Leví Gunnarsson: „Þingmenn hafa ýmsar leiðir til að rækja skyldur sínar við kjósendur. Eitt af því sem þingmenn geta gert er að spyrja ráðherra um eitt og annað sem máli skiptir og veita með því aðhald eða draga fram mikilvægar upplýsingar sem erfitt er að nálgast með öðrum hætti.“
„En það er með þetta eins og flest annað að það er hægt að misnota,“ skrifar ritstjórinn Davíð í beinu framhaldi. Þar fór það.
Davíð segir einnig að nú sitji fjöldi embættismanna til að svara „misjafnlega þarflausum fyrirspurnum Björns Levís Gunnarssonar.“
Það fer eflaust ekki eftir smekk hvað hverju og einu okkar þykir um gagnsemi spurninga Björns Leví. Það fer örugglega frekar eftir hagsmunum, hvað ber að þagga niður og hvað ekki.
-sme